- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hjálmar Jónsson var endurkjörinn formaður Blaðamannafélagsins á aðalfundi í gærkvöldi, en hann var sjálfkjörinn. Ekki urðu miklar breytingar á forystu félagsins en Magnús Halldórsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn og í hans stað var Rakel Ósk Sigurðardóttir kjörin í aðalstjórn. Rakel Ósk hafði átt sæti í varastjórn, og í hennar stað þar kom Höskuldur Kári Schram. Í samningaráði hætti Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir og kom Rakel Ósk Sigurðardóttir í hennar stað, en Rakel Ósk hafði verið varamaður í samningaráði og í hennar stað sem varamaður kom Erla Hlynsdóttir. Þá gaf Birgir Guðmundsson, sem verið hefur formaður verðlaunanefndar blaðamannaverðlauna, ekki kost á sér áfram en í verðlaunanefndina kemur Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir.
Á aðalfundinum var samþykkt ályktun um að fela stjórn félagsins að mynda sérstakt fagráð undir forustu varaformanns félagsins. Megin hlutverk þessa fagráðs á að vera að taka á móti nýjum faglegum verkefnum sem félaginu ber að taka að sér, m.a. í tengslum við breytt lagaumhverfi og nýja stöðu fjölmiðla og blaðamanna í landinu. Fram kom að meðal þess sem slíkt fagráð á að fjalla um eru reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og eftirfylgd með þeim.