- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Nýjar grundvallarreglur um fagleg viðmið (Code of professional standards) staðreyningarþjónustu, sem samstarfsnet aðila sem sinna staðreyningarþjónustu um alla Evrópu (European Fact-Checking Standards Network, EFCSN) kom sér saman um á síðastliðnu ári, eru ekki virtar sem skyldi af vefþjónusturisum eins og Google, Meta og Twitter, að mati EFCSN.
Umrædd fagleg viðmið hafa nú verið í gildi í sjö mánuði og af því tilefni hefur EFCSN látið gera fyrstu úttektina á því hvernig aðilum á markaði hefur gengið að starfa í samræmi við viðmiðin. Samkvæmt niðurstöðum þessarar úttektar, sem greint er frá í fréttatilkynningu frá EFCSN, vantar heilmikið uppá að umræddar vefþjónustur, sem hafa skuldbundið sig til að hlíta hinum faglegu viðmiðum gegn upplýsingaóreiðu, uppfylli þau. Vefþjónusturnar verði að bæta sig í samstarfi við staðreyningarþjónustur til að draga úr þeim skaða sem upplýsingaóreiða veldur notendum vefþjónustu þessara fyrirtækja.
Að mati EFCSN þurfa netfyrirtækin að ráðast í umtalsverðar umbætur til að ná betri árangri á þessu sviði. Að öðrum kosti gæti svo farið að fyrirtækin teldust brjóta í bága við skilmála þjónustutilskipunar Evrópusambandsins (EU Digital Services Act), þegar þau nýju Evrópulög verða að fullu komin til framkvæmda.
Meðal vefþjónustufyrirtækja sem matið nær til eru: Twitter, Google og YouTube, Microsoft (LinkedIn og Bing), TikTok, og Meta (Facebook, Instagram). Lesa má nánar um niðurstöðurnar í fréttatilkynningu á vef EFCSN.
Það var um mitt ár í fyrr sem hátt í 50 staðreyningarþjónustur - eins og við kjósum hér að nefna það sem á ensku nefnist fact-checking organizations - settu undir merkjum EFCSN grundvallarreglur um fagleg viðmið fyrir þessa mikilvægu starfsemi í baráttunni gegn upplýsingaóreiðu (sjá frétt hér á Press.is í nóvember). Reglurnar lýsa þeim viðmiðum sem þeir sem gefa sig út fyrir að sinna staðreyningarþjónustu þurfa að uppfylla til að hljóta vottun sem áreiðanleg, og aðild að hinu nýja evrópska samstarfsneti. Með aðild að EFCSN er vonast til að almenningur geti auðveldlega áttað sig á því hverjir sem leggja stund á slíka þjónustu geri það með óháðum hætti, á grunni siðferðilegra viðmiða og í þágu almannaheilla.