Umsóknarfrestur um fréttamannastyrki að renna út!

Umsóknarfrestur um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs 2013 rennur út eftir helgina, nánar tiltekið á hádegi mánudaginn 18. Mars, og eru blaðamenn hvattir til að kynna sér þennan möguleika. Norðurlandaráð veitir fréttamönnum á Norðurlöndum styrki árlega og árið 2013 kemur í Íslands hlut fjárhæð að jafnvirði 90.000 danskar krónur.   Styrkirnir veita fréttamönnum tækifæri til að auka þekkingu sína á norrænum málefnum og norrænu samstarfi. Styrkirnir eru veittir einum eða fleiri fréttamönnum dagblaða, tímarita, útvarps eða sjónvarpsstöðva eða sjálfstætt starfandi fréttamönnum.

Við úthlutun fréttamannastyrkjanna árið 2013 verður lögð áhersla á verkefni um norrænt samstarf, þar á meðal störf og fundi Norðurlandaráðs og áherslu ráðsins á árinu á utanríkis-, öryggis- og varnarmál. Þá verður einnig lögð áhersla á verkefni um menningarstefnu sem vettvang fjölbreytni og sjálfsmyndar á Norðurlöndum, nánar tiltekið um hvernig norrænt samstarf í menningarmálum tekur mið af auknum flutningi fólks milli landa og meiri fjölbreytni í menningu, trúarbrögðum og þjóðlífi, og hvernig lista- og menningargeirinn túlkar þau lýðræðislegu gildi sem Norðurlandabúar eiga sameiginleg.

Styrkjunum er úthlutað til einstaklinga á grundvelli greinargerðar í umsókn. Í umsóknum skal tilgreina hvernig umsækjandi hyggst nota styrk. Einnig skal gera grein fyrir verkáætlun og kostnaðaráætlun. Þá skal tekið fram hvort umsækjandi hafi áður hlotið fréttamannastyrk Norðurlandaráðs.

Styrkir eru veittir til eins árs. Styrkþegar skulu senda Íslandsdeild Norðurlandaráðs stutta greinargerð um hvernig styrknum var varið og hvaða efni var unnið í framhaldi af styrkveitingunni. Norðurlandaráð áskilur sér rétt til að nota greinargerðina í sínu starfi.

Frekari upplýsingar um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs má finna hér .

Umsóknum þar sem fram kemur hver, hvenær og hvernig á að nota styrkinn ástamt greinargerð um hvaða viðfangsefni  á að fást við má skila rafrænt til larusv@althingi.is eða með bréfi til: Íslandsdeild Norðurlandaráðs, Alþingi, 150 Reykjavík

Umsóknarfrestur er eins og áður segir til kl. 12 á hádegi mánudaginn 18. mars 2013.