- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Eins og greint var frá á þessum vettvangi nýlega hefur lögmaður BÍ sent formlega kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna þess sem félagið telur vera ófullnægjandi svör sem það fékk frá dómsmálaráðuneytinu við bréfi sem það sendi dómsmálaráðherra með spurningum um viðbrögð hans sem yfirmanns lögreglumála við „flóðljósamálinu“ á Keflavíkurflugvelli í nóvember sl.
Nú hefur umboðsmaður brugðist við kvörtun BÍ með því að senda dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem spurt er um ástæður þess að erindi BÍ til ráðuneytisins hafi af þess hálfu ekki verið talið veita tilefni til viðbragða. Umboðsmaður æskir svara frá ráðuneytinu fyrir 21. mars.
Eins og áður var greint frá hér á Press.is sendi Blaðamannafélagið dómsmálaráðherra bréf í janúar þar sem fjórum spurningum var beint til hans sem yfirmanns lögreglumála á Íslandi um flóðljósamálið svonefnda, þegar fréttamenn voru hindraðir við störf á vettvangi á Keflavíkurflugvelli þar sem verið var að vísa hælisleitendum úr landi aðfaranótt 3. nóvember 2022.