Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna fyrir 2012

Hér á eftir eru birtar tilnefningar dómnefndar til blaðamannaverðlauna fyrir árið 2012.  Tilnefningar eru þrjár í hverjum flokki, en flokkarnir eru nú fjórir þar sem flokkurinn "Viðtal ársins" er nú með í fyrsta sinn. Samkvæmt reglugerð verðlaunanna eru tilnefningar dómnefndar birtar viku fyrir afhendingu verðlaunanna sjálfra en Blaðamannaverðlaunin verða afhent í Gerðarsafni á laugardaginn kemur, 9. mars kl. 15:00. Tilnefningarnar eru sem hér segir:

  

Umfjöllun ársins
Egill Ólafsson, mbl.is (Morgunblaðinu), fyrir vandaðan, skjótan og alhliða fréttaflutning af illviðri og snjókomu í september 2012, þar sem frá upphafi var dregin fram og skilgreind yfirvofandi ógn fyrir fólk og búfénað.

Kristjana Guðbrandsdóttir, DV, fyrir viðamikinn og vandaðan greinaflokk um einhverfu, ýmsar birtingarmyndir hennar og vandamál við greiningu, ekki síst hjá stúlkum.

Sunna Valgerðardóttir, Fréttablaðinu, fyrir áhrifamikla, heildstæða og vel unna röð fréttaskýringa um stöðu geðfatlaðra.   

            
Rannsóknarblaðamennska
Andri Ólafsson, Stöð 2, fyrir afhjúpandi fréttir af aðkallandi fjárhagsvanda hjúkrunarheimilisins EIR

Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttastofu RÚV, fyrir uppljóstrandi og ítarlega umfjöllun um kadmíum í áburði annars vegar og notkun iðnaðarsalts í matvælum hins vegar.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljósi, fyrir að draga fram óbirtar og gagnrýnar skýrslur Ríkisendurskoðunar um bókhaldskerfi ríkisins og fyrir að varpa, ásamt Helga Seljan ljósi á umdeild atriði varðandi innleiðingu kerfisins.  

Viðtal ársins
Anna Brynja Baldursdóttir, Vikunni, fyrir opinskátt viðtal við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup sem tjáði sig þar með einlægum hætti um bæði persónuleg mál sín og atriði sem varða embættið.

Sigmar Guðmundsson, Kastljósi, fyrir sérstaklega áhrifaríkt og sterkt viðtal við Eirík Inga Jóhannsson, sjómann sem komst lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst.

Skapti Hallgrímsson, Morgunblaðinu, fyrir sérstaklega vel skrifað og lifandi mannlífsviðtal við eistneska tónlistarmanninn Valmar Valjaots.

Blaðamannaverðlaun ársins
Ingi Freyr Vilhjálmsson, DV, fyrir umfjöllun um fiskveiðar Íslendinga við Afríku og ýmis skrif um viðskipti og uppgjör í kjölfar hrunsins.  

Ragnar Axelsson, Morgunblaðinu, fyrir merka umfjöllun og myndir af stórum pollum á Grænlandsjökli sem voru til marks um óvenju mikla bráðnun Grænlandsjökuls.  

Una Sighvatsdóttir, mbl.is (Morgunblaðinu), fyrir greinaflokkinn Váin á vegum, þar sem fjallað var um umferðarslys frá mörgum sjónarmiðum með því að tvinna saman ýmsar fjölmiðlagáttir s.s. prentmiðilinn, netið, gagnvirka grafíska framsetningu og myndskeið.