- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sérstök umræða um fjölmiðlafrelsi fór fram á Alþingi í dag. Lítið var þó rætt um það sem var kveikjan að umræðunni: bann dómara við fréttaflutningi af stóru dómsmáli. Frumkvæði að umræðunni átti Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri-Grænna, og var Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra menningar- og viðskiptamála sem hefur málefni fjölmiðla líka á sinni könnu, til andsvara.
Málshefjandi vísaði í yfirlýsinguna sem BÍ sendi frá sér í gær í tilefni af því að dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur kallaði fulltrúa fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 fyrir dóminn fyrir að hafa farið gegn fréttabanni sem dómarinn setti í byrjun janúar vegna tiltekins sakamáls sem er til meðferðar hjá dómnum. Félagið mótmælir túlkun dómarans á lögum um meðferð sakamála og telur hana stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, auk þess sem lög kveði skýrt á um að þinghald skuli háð í heyranda hljóði. Þessi mótmæli BÍ las Jódís upp í ræðu sinni á Alþingi.
Í umræðunni var tæpt á mörgum öðrum atriðum sem varða starfsskilyrði fjölmiðla hérlendis; margir þingmenn tóku undir þá fullyrðingu að fjölmiðlar væru einn af hornsteinum lýðræðisins og þeim yrði að tryggja „það öryggi og starfsumhverfi sem þeim ber til að geta sinnt mikilvægum skyldum sínum“.
Samfylkingarþingmennirnir Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Andri Thorsson lögði í sínum ræðum áherslu á að finna yrði leiðir til að girða fyrir tilhæfulausar málsóknir gegn fjölmiðlafólki.
Píratinn Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Viðreisnarþingmaðurinn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir gerðu að umtalsefni þá „atlögu að fjölmiðlafrelsi í landinu“ sem stórfyrirtækið Samherji hefði staðið að, með ósvífnum árásum á vissa fjölmiðla og einstaka blaðamenn. Guðbrandur Einarsson, Viðreisn, lýsti áhyggjum af því að verið væri að þrengja að fjölmiðlafrelsi í landinu í litlum skrefum, og nefndi fréttabann dómarans í áðurnefndu dómsmáli sem dæmi um slíka þróun.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir áhyggjur af rekstrarumhverfi fjölmiðla og vísaði þar í yfirburðastöðu ríkisins á fjölmiðlamarkaði; mælti hún með því að RÚV væri tekið af auglýsingamarkaði til að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðlanna.
Ráðherra fjölmiðlamála, Lilja D. Alfreðsdóttir, þakkaði fyrir „mjög gagnlega umræðu“ og sagði: „Við erum á rauðu ljósi hvað varðar starfsumhverfi fjölmiðla,“ og tók undir að vegið sé að tjáningarfrelsi fjölmliðla í dag. Að sögn ráðherrans er það „óásættanleg staða“ að Ísland sé komið niður í 15. sæti alþjóðlegra mælinga á fjölmiðlafrelsi, en hin Norðurlöndin raða sér eftir sem áður í efstu sæti þess lista. Ráðherrann sagðist binda vonir við að fjölmiðlastefna sú sem verið er að vinna að í ráðuneytinu, í samráði við hagaðila, geti hjálpað til við að laga þessa stöðu. Hún tók einnig undir að tekjumódel íslenskra fjölmiðla „gengur einfaldlega ekki upp. Okkur ber skylda til þess að starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi verði sjálfbært,“ lýsti Lilja yfir, en hún sló botn í umræðuna með þessum orðum: „Ég heyri það að þingheimur er sameinaður í því að það þurfi að bæta starfsumhverfi fjölmiðla, erum kannski ekki öll sammála um leiðir en markmiðið er skýrt.“