Stjórn BÍ: Skorar á stjórnvöld að standa við fyrirheit gagnvart fjölmiðlum

 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar Blaðamannafélags Íslands:

Stjórn Blaðamannafélags Íslands skorar á stjórnvöld að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um að bæta starfsumhverfi fjölmiðla. Um það segir orðrétt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá 30. nóvember 2017: „Ríkisstjórnin mun bæta starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með endurskoðun á skattalegu umhverfi þeirra. “ Nú þegar kjörtímabilið er ríflega hálfnað telur stjórn BÍ það vera nauðsynlegt skref og í raun einföld og markviss ráðstöfun að endurgreiða fjölmiðlum þá skatta sem á þá eru lagðir. Slík aðgerð myndi nýttast fjölmiðlum vel og krefst í raun lítils sem einskis umbúnaðar og ólíklegt til að vera umdeilanleg aðgerð í þjóðfélaginu. Má í því sambandi hafa í huga að bókaútgáfa, dagskrár- og kvikmyndagerð í landinu eru styrkt með endurgreiðslu kostnaðar í gegnum skattkerfið. Miklu skiptir að gengið sé rösklega til verks og að frjáls fjölmiðlun í landinu sé styrkt með myndarlegum hætti og rekstrarstaða fjölmiðla bætt svo upplýsingakerfi íslensks samfélags megi vera jafn blómlegt hér eftir sem hingað til. Ríkisstjórnin hlýtur að standa við fyrirheit sín og endurskoða skattalegt umhverfi fjölmiðla.


Reykjavík 25. október 2019