- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Rekstur og efnahagur BÍ stendur styrkum fótum og var afkoma félagsins góð á síðasta ári. Þetta var meðal þess sem kom fram í skýrslu stjórnar sem Hjálmar Jónsson flutti á aðalfundi félagsins í gær. Hjálmar gerði einnig grein fyrir hugmyndum stjórnar um að kaupa viðbótarhlut í húsnæðinu við Síðumúla þannig að öll 3. hæðin myndi tilheyra BÍ. Félagið hefur fjárhagslega burði til að gera þetta að sögn Hjálmars og með vexti félagsins á umliðnum árum hefur skapast félagsleg þörf fyrir meira húsrými. Hjálmar ræddi einnig kjarasamninga og upplýsti að samninganefnd BÍ hafi samþykkt að framlengja nýgerðan kjarasamning um 2 mánuði gegn því að orlofsuppbót hækkaði um 10 þúsund kr. og desemberuppbót um 20 þúsund kr. Þetta tilboð er tilkomið vegna þeirra félaga á almennum vinnumarkaði sem felldu kjarasamninga í fyrstu umferð, en gerðu síðan samninga sem fólu þetta í sér. Er þetta í samræmi við það sem önnu stéttafélög hafa gert.
Tiltölulega litlar breytingar urðu á skipan í stjórnir og trúnaðarstörf hjá félaginu og var Hjálmar Jónsson endurkjörinn formaður. Helstu breytingar eru þessar: Í aðalstjórn kemur inn Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, en Sigurður Már Jónsson fór út úr stjórninni á síðasta ári sem kunnugt er. Þá gaf Erla Hlynsdóttir ekki kost á sér í aðalstjórnina og í hennar stað kemur Höskuldur Kári Schram. Í varastjórn koma inn Ingveldur Geirsdóttir og Trausti Hafliðason. Í samningaráð kemur innn Aðalsteinn Kjartansson í stað Kolbeins Óttarssonar Proppé. Í styrktarsjóði hefur Fríða Björnsdóttir verið í varastjórn en hún gaf ekki kost á sér og í hennar stað kemur Baldur Guðmundsson. Loks varð breyting á verðlaunanefnd Blaðamannaverðlauna, en þar gaf Jóhannes Tómasson ekki kost á sér til áframhaldandi setu en í hans stað kemur Kári Jónasson.