- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Á fundi stjórnar Blaðamannafélagsins fyrr í dag fór fram umræða um þau helstu verkefni sem stjórnin vill beita sér fyrir á næstunni, þ.e. það sem eftir er af árinu 2015 og á árinu 2016. Stjórn skilgreindi sérstakan verkefnalista eða starfsáætlun sem tekur til hinna ýmsu þátta í starfsemi félagsins og stefnt er á að hrinda í framkvæmd. Hér á eftir er þessi verkefnalisti/starfsáætlun birt:
Starfsáætlun stjórnar 2015-2016
Nýir kjarasamningar eru meginverkefni félagsins á árinu.
Kjarasamningar félagsins verði gefnir út ásamt lögum félagsins og reglugerðum sjóða þess.
Haldið verði áfram skráningu á einstökum þáttum í sögu félagsins og fram haldið skráningu minja og mynda í eigu þess.
Blaðamannaminni, sem er vísir að blaðamannatali hefur verið birt á vef félagsins. Það nær fram til ársins 1960 og verður haldið áfram við skráningu blaðamanna sem hófu störf á tímabilinu 1960-1970.
Lokið verði við innréttingar á nýjum fundarsölum í austurenda 3. hæðar Síðumúla 23, sem félagið hefur keypt og lokið við endurbætur á hreinlætis- og eldhúsaðstöðu því tengt.
Gefið verði út annað bindi af bókinni Íslenskir blaðamenn sem innifeli viðtöl við blaðamenn sem eru með félagsnúmer 10-20.
Kannað verði með útgáfu á úrvali mynda úr fyrstu tíu bókunum af Myndum ársins.
Fréttaumfjöllun á heimasíðu félagsins verði áfram aukin um það sem hæst ber í blaðamennsku hér á landi og erlendis. Heimasíðan bjóði upp á allar nýjustu aðferðir sem ný samskiptatækni býður upp á til þess að koma sjónarmiðum félagsins á framfæri út á við og gagnvart félagsmönnum sínum.Félagið stuðli áfram að endurmenntun með öllum tiltækum ráðum, m.a. með þátttöku í ráðstefnuhaldi og með því að halda sérstök endurmenntunarnámskeið um tiltekin efni.
Félagið rækti samstarf á alþjóðavettvangi á vegum Alþjóðasambands blaðamanna IFJ, Evrópusambands blaðamanna EFJ og Norræns sambands blaðamanna NFJ og verði vakandi fyrir nýjum áherslum í alþjóðasamstarfi.
Lokið verði við að taka saman skrá yfir meiðyrðamál og meiðyrðadóma síðustu 20-25 ára og hún notaður sem grunnur að aframhaldandi starfi félagsins að því að tryggja með öllum ráðum raunverulegt tjáningarfrelsi í landinu. Skráin og dómarnir verði aðgengilegir á heimasíðu félagsins.
Geymslur verði byggðar og endurbætur gerðar á útiaðstöðu við bæði orlofshús félagsins í Brekkuskógi.
Tekin veri saman skrá yfir fræðilegar ritgerðir sem fjalla um fjölmiðla og blaðamennsku og efni sem skiptir máli sem sem hvað varðar meiðyrði og friðhelgi einkalífs.