- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Freischreiber heita samtök sjálfstætt starfandi blaðamanna í Þýskalandi sem stofnuð voru árið 2008. Þau telja nú um 900 virka meðlimi, enda er fyrir því löng hefð þar í landi að stór hluti blaðamannastéttarinnar sé ekki samningsbundin einni ritstjórn, heldur skrifi frjálst í eigin nafni fyrir hina ýmsu miðla.
Fljótlega eftir stofnun tóku samtökin uppá því að vekja athygli á hlutskipti sjálfstætt starfandi blaðamanna með því að efna til „Himins- og helvítis-verlaunanna“ (Himmel- und Hölle-Preis). Árlega er með þessu einn fjölmiðill eða ritstjórn heiðraður/-uð með „Himins“-verðlaununum fyrir lofsverða framkomu við sjálfstætt starfandi blaðamenn. Hitt eru skammarverðlaun sem veitt eru ritstjórnum sem hafa orðið uppvísar að slæmri framkomu við skjólstæðinga samtakanna.
Í ár beindi Freischreiber athyglinni að störfum sjálfstætt starfandi blaðamanna sem vinna sem fréttaritarar í útlöndum fyrir þýska miðla. „Himins-“viðurkenninguna fyrir sanngjarna umgengni við sjálfstæða fréttaritara á erlendum vettvangi fékk ritstjórn þáttarins „Hintergrund“ á þýsku ríkisútvarpsstöðinni Deutschlandfunk. Engin einstök ritstjórn sat uppi með skammarverðlaunin að þessu sinni, heldur kaus viðurkenningarráðið að beina því til „(næstum) allra annarra“ ritstjórna að þær þyrftu að standa sig betur gagnvart sjálfsætt starfandi heimildamönnum sínum, sem stunda fréttaflutning á eigin ábyrgð frá hinum ýmsu heimshornum.
Um samtökin Freischreiber og „Himins- og helvítis-verðlaunin“ má nánar lesa hér (á þýsku).