Samningur við Birting og Fréttatímann

 

Blaðamannafélag Íslands hefur undirritað nýja kjarasamninga við útgáfuféllagið Birting, stærsta útgefanda tímarita í landinu, og Fréttatímann. Áður hafði verið gerður kjarasamningur við DV. Viðræður við aðra fjölmiðla, sem standa utan Samtaka atvinnulífsins, ganga vel. Kjarasamningarnir verða bornir undir atkvæði á viðkomandi vinnustöðum á morgun, miðvikudag.

Fyrsta fundinum í kjaradeilu Blaðamannafélagsins við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara lauk fyrir stundu. Fundurinn var með öllu árangurslaus. Nýr fundur hefur verið boðaður að viku liðinni. Samtök atvinnulífsins fara með samningsumboð fyrir Árvakur, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, 365, útgefanda Fréttablaðsins, Vísis og Stöðvar 2 og Ríkisútvarpið.