- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Evrópusamband blaðamanna, Alþjóðasamband blaðamanna og þrjú samtök sem láta sig tjáningarfrelsi fjölmiðla varða ásamt fulltrúum Evrópuráðsins skrifuðu í síðustu viku undir samkomulag um vettvang eða viðbragðsáætlun til að tryggja sem best öryggi blaðamanna við störf sín. Samkomulagið var undirritað við hátíðlega athöfn að á ráðstefnu í París sem Þing Evrópuráðsins og efri deild franska þingsins höfðu skipulagt.
Þessi vettvangur eða viðbragðsáætlun byggir á sameiginlegu alþjóðlegu vefsetri þar sem viðurkennd samtök og stofnanir á sviði fjölmiðlafrelsis geta sett fram viðvaranir um að tjáningarfrelsi tiltekinna fjölmiðla eða fjölmiðlafólks í einhverju landi sé á einhvern hátt í hættu. Með því er hugmyndin að alþjóðlegir aðilar s.s. Evrópuráðið, fjölmiðlafulltrúar ÖSE, Evrópusambandið eða Sameinuðu þjóðirnar geti brugðist hratt við og beitt sér í málum.
Í viðvörunum kæmu fram staðreyndir sem búið væri að sannreyna af þeim samtökum sem viðurkennd hafa verið um hugsanlega vá sem blasti við t.d. blaðamönnum, bloggurum og rithöfundum eða hættu sem steðjaði að heimildarmönnum þeirra. Eins gæti fallið undir þetta gróf brot á persónuvernd og þrýstingur á blaðamenn í gegnum misnotkun á löggjöf t.d. um meiðyrði, minnihlutahópa, þjóðaröryggi eða öfgahyggju.
Sjá minnisblað Evrópuráðsins um málið hér
Sjá einnig frétt hérna