- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag, 22. desember, dóm í svokölluðu Brúneggjamáli, sem snerist um skaðabótakröfur fyrrverandi eigenda eggjaframleiðandans Brúneggja ehf. á hendur RÚV og Matvælastofnun (MAST), en fyrirtækið fór í þrot eftir umfjöllun um starfshætti þess í Kastljósi á RÚV síðla árs 2017. Dómsmálið var umfangsmikið, en stefnan og greinargerðin var upp á 157 blaðsíður. Málið var dómtekið í desember 2021 og aðalmeðferðin fór fram um síðustu mánaðamót.
Í þættinum sem málið snerist um var fjallað um slæman aðbúnað hænsnfugla og að eggin frá Brúneggjum ehf. væru auglýst sem vistvæn án þess að uppfylla skilyrði sem um þá „vottun“ giltu. Um tíma seldi Brúnegg um fimmtung allra eggja á smásölumarkaði hérlendis. Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður hlaut blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllunina en Brúnegg urðu gjaldþrota þegar smásalar tóku eggin úr sölu.
Forsvarsmenn fyrrum eigenda Brúneggja töldu að þessi fréttaflutningur RÚV hafi verið rangur og að MAST hefði farið út fyrir valdsvið sitt við upplýsingagjöf til RÚV, „með ólögmætum og saknæmum hætti“.
Í dómnum er fjallað um blaðamennsku í víðara samhengi og hnykkt á frelsi blaðamanna til þess að meta hvað er fréttnæmt og eigi erindi við almenning. Ennfremur njóti blaðamenn, samkvæmt dómnum, frelsi til þess að velja umfjöllunarefni og hafa svigrúm til þess að ákveða framsetningu efnis, líkt og lesa má á bls. 22 í dómnum.
Í dómsorði segir ennfremur (bls. 23-24):
„Að öllu framangreindu virtu verður fallist á það með stefnda RÚV að umfjöllun stefnda hafi átt fyllsta erindi til almennings, hún hafi verið sett fram í góðri trú og fái fullnægjandi stoð í gögnum málsins. Gögn málsins bera með sér að í starfsemi Brúneggja hafi meðal annars verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli, laga nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerðar nr. 135/2015 um velferð alifugla. Umfjöllun stefnda RÚV um þau brot var reist á því sem ráða mátti af stjórnsýslueftirliti með Brúneggjum og samtölum og viðtölum við stjórnendur stefnda MAST.
Þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að umfjöllun og vinnubrögð stefnda RÚV og starfsmanna hans hafi verið í samræmi við skyldur samkvæmt lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla og lögum nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu,og þær kröfur sem gera megi til fjölmiðla, þar á meðal að virtri réttarframkvæmd og að virtu hlutverki fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi. Því er ekki fallist á það með stefnendum að sú háttsemi starfsmanna stefnda RÚV sem lýst er í dómkröfum hafi verið ólögmæt og saknæm.
Þá verður ekki á það fallist með stefnendum að víkja beri frá þeirrireglu skaðabótaréttar að það hvíli á þeim að sanna að háttsemi stefndu hafi verið saknæm og ólögmæt og á það jafnt við um stefnda MAST og stefnda RÚV. Svo sem að framan greinir hefur stefnendum að mati dómsins ekki tekist að færa sönnur að því að háttsemi starfsmanna stefndu sem lýst er í dómkröfum hafi verið saknæm og ólögmæt og eru því skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefndu ekki fyrir hendi.
...
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að stefndu beri, hvorki saman né hvor um sig, skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum vegna tjóns Brúneggja ehf. af þeirri háttsemi stefndu eða starfsmanna þeirra sem lýst er í dómkröfum. Verða stefndu báðir því sýknaðir af viðurkenningarkröfum stefnenda, jafnt í aðalkröfum sem varakröfum.“
Í ljósi sýknudóms stefndu voru stefnendur, Bali ehf. og Geysir-Fjárfestingarfélag, dæmdir til að greiða fjórar milljónir króna í málskostnað til hvors hinna stefndu, RÚV og MAST.