- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þrjár blaðakonur eru ranglega ásakaðar um verkfallsbrot í stefnu Blaðamannafélags Íslands gegn Árvakri vegna verkfallsbrota á mbl.is í verkfalli félagsins föstudaginn 8. nóvember sl. Blaðakonurnar höfðu lagt niður störf, en fréttir voru birtar í þeirra nafni meðan á verkfallinu stóð.
BÍ hefur falið lögmanni sínum að laga stefnuna að þessum staðreyndum. Blaðakonurnar eru beðnar afsökunar á því að hafa ranglega verið dregnar inn í málsrekstur vegna verkfallsbrotaanna. Árvakur verður krafinn skýringa á því hver beri ábyrgð á og hafi staðið á bakvið birtingu fréttanna að blaðakonunum forspurðum á meðan vinnustöðvunin stóð yfir.
Blaðakonurnar sem um ræðir eru Guðrún Selma Sigurjónsdóttir, Sonja Sif Þórólfsdóttir og Lilja Ósk Sigurðardóttir. Er hér með ítrekuð afsökunarbeiðni til þeirra yfir að hafa að ósekju verið dregnar inn í ásakanir um lögbrot sem þær bera enga ábyrgð á.
“Í dag (gær) lagði ég niður störf kl. 10.00 og stimplaði mig út rétt eins og síðasta föstudag, enda í verkfalli,” segir Guðrún Selma í tölvupósti til félagsins. “Ég styð að sjálfsögðu kollega mína heilshugar og myndi aldrei framkvæma verkfallsbrot,” segir Lilja Ósk og Sonja Sif segir: “Ég myndi aldrei vinna gegn baráttu sem ég styð. Það er verið að berjast fyrir mínum kjörum í framtíðinni.”
Árvakur hélt uppteknum hætti í vinnustöðvun Blaðamannafélagsins í gær og ríflega 40 fréttir birtust meðan á verkfallinu stóð milli klukkan 10 og 18. Árvakur er eina fyrirtækið sem brýtur gegn vinnustöðvuninni, en framkvæmd hennar var til fyrirmyndar á Sýn, RÚV og Fréttablaðinu. Aflað verður frekari gagna um þessi brot og verður þeim bætt við þau gögn sem lögð verða fram í Félagsdómi við þingfestingu málsins á þriðjudaginn kemur.
Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru afdráttarlaus hvað þetta snertir, en þar segir: “Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.“
Þarna er því á ferðinni óvenju einbeittur brotavilji, sem Árvakur er einn um og deilir ekki með öðrum aðilum að kjaradeilunni. Dapurlegt viðhorf til réttar fólks til að framfylgja kröfum sínum með löglega boðuðum aðgerðum.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ