Prentmiðlar og línuleg dagskrá áfram á niðurleið

Jón Þórisson, forstjóri Torgs ehf.
Jón Þórisson, forstjóri Torgs ehf.

Lestur dagblaðanna sem enn koma út á prenti á Íslandi heldur áfram að dragast saman hröðum skrefum, og það sama á við um áhorf á línulega dagskrá íslensku sjónvarpsstöðvanna. Á þessu er vakin athygli í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í dag. Í umfjöllun Kjarnans um málið er bætt við sláandi upplýsingum um taprekstur útgáfufélaga dagblaðanna. 

Í fréttaskýringu Fréttablaðsins, sem Ragnar Jón Hrólfsson blaðamaður skrifar, er vakin athygli á því að minnkandi lestur dagblaða samhliða minnkandi áhorfi á línulega dagskrá kalli á róttækar breytingar hjá flestöllum fjölmiðlum landsins. Aukin færsla fjölmiðlaneyslu yfir á stafrænt form, fallandi línulegt sjónvarpsáhorf og dreifing neyslu hafi gjörbreytt því umhverfi sem hafi verið ríkjandi á fjölmiðlamarkaði hérlendis undanfarna áratugi. 

Í greininni er vitnað til sláandi talna úr mælingum á lestri prentuðu dagblaðanna, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, og úr mælingum á sjónvarpsáhorfi Íslendinga. Lestur á Fréttablaðinu hafi árið 2008 mælst í kringum 65 prósent en á Morgunblaðinu um 41 prósent. Þessar tölur séu nú komnar niður í 27,7 prósent fyrir Fréttablaðið og 17,4 prósent fyrir Morgunblaðið. Almennt áhorf á dagskrá Sjónvarpsins hafi í apríl 2013 mælst 67,2 prósent (fyrir aldurshópinn 12-80 ára) en 46,5 prósent fyrir Stöð 2. Í apríl 2021 hafi þessar tölur verið komnar niður í 52,5 prósent fyrir Sjónvarpið og 17,0 prósent fyrir Stöð 2. 

Haft er eftir Jóni Þórissyni, forstjóra Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, að fjölmiðlar verði að vera óhræddir við að skoða nýjar leiðir til útgáfu. Sem dæmi megi nefna danska dagblaðið BT, sem ætli að hætta útgáfu blaðsins á prenti og gefa út eingöngu á rafrænu formi. "Þeir verða þá ekki endilega vefmiðill heldur yrði uppsetning blaðsins nákvæmlega sú sama og hún hefði verið á prenti." Þetta sé mjög athyglisverð tilraun að mati Jóns, sem bætir við: "Þá er eðlilegt að menn spyrji hvort það sé eitthvað sem gæti gerst á okkar miðli. Við verðum að horfast í augu við að á einhverjum tímapunkti í framtíðinni mun Fréttablaðið (...) hætta að koma út á prenti." 

Í umfjöllun Kjarnans eru tíndar til upplýsingar um hallarekstur útgáfufélaga Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að eigendur Torgs ehf., sem auk Fréttablaðsins heldur líka úti vefmiðlunum dv.is, eyj­an.is, press­an.is, 433.is, hring­braut.is, fretta­bla­did.is og sjón­­­­varps­­­­stöð­inni Hring­braut, hafi frá því þeir eignuðust félagið árið 2019 þurft að leggja því til um einn milljarð króna. Um rekstur Morgunblaðsins segir Kjarninn þetta: "Frá því að nýir eig­endur tóku við rekstri Árvak­­­­­urs í febr­­­­­úar 2009 undir hatti Þór­s­­­­­merkur og til loka árs 2020 hefur útgáfu­­­­­­fé­lagið tapað yfir 2,5 millj­­­­­­örðum króna. Eig­enda­hóp­­­­­­ur­inn, sem hefur tekið ein­hverjum breyt­ingum á tíma­bil­inu, hefur nú lagt Árvakri til sam­tals tvo millj­­­­­­arða króna í nýtt hluta­­­­­­fé."