- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kosningaeftirlit OSCE/ODHIR gerir ekki alvarlegar athugasemdir við fjölmiðlaumfjöllunina fyrir alþingiskosningarnar í vor, en eftirlitsnefndin hefur skilað skýrslu sinni. Þar kemur fram að umfjöllun fjölmiðla fyrir kosningarnar hafi verð mikil og fjölbreytt og þjónað lýðræðislegum markmiðum, þó hún hafi ekki sérstaklega í ljósvakamiðlum verið mjög djúp.
Hins vegar gerir nefndin ýmsar athugasemdir varðandi einstök atriði. Meðal þess sem nefndin nefnir sem áhyggjuefni er að mikil samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ógni fjölbreytni í efnisframboði. Telur hún að stjórnvöld ættu að íhuga frekari ráðstafanir til að takmarka samþjöppun til að koma í veg fyrir einokun og hagsmunaárekstra og kanna hvort hægt sé að setja reglur sem takmarki áhrif tiltekinna einstaklinga, fyrirtækja eða hópa á einn eða fleiri hluta fjölmiðlamarkaðarins. Einnig beri að tryggja fjölbreytni og nægjanlegan fjölda fjölmiðlagátta.
Þá leggur eftirlitsnefndin til að staða Fjölmiðlanefndar verði styrkt með auknum valdheimildum og hlutverk hennar gert skýrara til að hún geti fylgt eftir fjölmiðlalögunum. Skoða þurfi hvort ekki beri að fela Fjölmiðlanefnd sérstakt hlutverk við að fylgjast með kosningum í samstarfi við kerfisbundið eftirlit með kosningabaráttunni.
Þá tekur eftirlitsnefndin upp athugasemdir frá því í síðustu skýrslu sinni þegar fjallað var um að heppilegt kynni að vera að RÚV veitti stjórnmálaflokkum frían útsendingartíma fyrir kosningar. Ekki var orðið við því sem kunnugt er, en nefndin segir nú að í ljósi mikilvægis almenningsútvarps í að veita breiða umfjöllun sem sé í jafnvægi, sé skynsamlegt að skoða á ný afstöðuna í þessum efnum.
Þá er bent á að mikill fjöldi kannana hafi birst fyrir kosningarnar og ekki hafi alltaf verið ljóst hver gerði þær eða hvaða aðferðafræði var beitt. Leggur nefnid til að settar verði reglur sem kveði á um að greinilega sé sagt frá aðferðafræði kannana, hvenær þær voru gerðar og hver standi að baki þeim.
Sjá skýrsluna í heild hér