- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Bloomberg News hefur fyrst alþjóðlegra fréttaveita ráðið íslenskan blaðamann til starfa en það er Ómar Valdimarsson. Honum er fyrst og síðast ætlað að fjalla um íslensk viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál. Ómar hóf störf í gær eftir að hafa sinnt Bloomberg sem verktaki frá því í maí 2009. Ómar segir að hugsanlega verði blaðamönnum fjölgað eftir því sem fram líða stundir.
Helsta breytingin sem er þessu samfara er að nú get ég helgað mig alfarið fréttaöflun fyrir Bloomberg, þó svo að í raun hafi þetta verið fullt starf frá því að ég byrjaði í maí 2009. Til marks um umfangið hefur Bloomberg birt á bilinu 20 til 60 fréttir um atburði á Íslandi í hverjum mánuði, á síðastliðnum fjórum árum.
Að sögn Ómars hefur Bloomberg mikinn áhuga á að efla enn frekar fréttaumfjöllun frá Íslandi sem og frá Skandinavíu. Til marks um það starfa hjá Bloomberg alls um 25 blaðamenn í Osló, Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og nú Reykjavík, sem allir helga sig fréttum sem kunna að hafa áhrif á markaði, svo sem skuldabréfamarkaði, hlutabréfamarkaði eða markaði með gjaldmiðla og afleiður. Ómar segir að þessi hópur muni vaxa á komandi árum og það megi leiða líkur að því að eftir því sem eftirspurnin eftir fréttum frá Íslandi aukist muni starfseminni hér á landi vaxa fiskur um hrygg.
Margt af því sem hefur verið sagt og gert á Íslandi í gegnum árin hefur gjarnan verið hugsað til heimabrúks" af stjórnmálamönnum og aðilum í viðskiptalífinu. Með aukinni fréttaumfjöllun um Ísland er sá tími, að aðilar í áhrifastöðum geti sagt eitthvað eitt hér heima og predikað annað á erlendum vettvangi, liðinn," sagði Ómar.