- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þrír landsþekktir blaðamenn ásamt samstarfsmönnum munu síðar í sumar hefja útgáfu á nýjum miðli, Kjarnanum. Blaðamennirnir sem hér um ræðir eru þeir Þórður Snær Júlíusson, sem verður ritstjóri, Magnús Halldórsson og Ægir Þór Eysteinsson. Ægir hefur verið fréttamaður á RÚv en hætti þar fyrir skömmu til að taka þátt í þessu verkefni. Þeir Magnús og Þórður Snær hafa starfað fyrir 365 miðla, einkum í viðskiptafréttum en hættu báðir fyrir skömmu. Þeir hafa verið í lykilhlutverkum í umræðu um eigendaafskipti hjá 365 sem fram hefur farið upp á síðkastið og Magnús skrifaði m.a. grein á Vísi um málið undir yfirskriftinni Litli karlinn. Í gær kom það svo fram að til hafi staðið að reka Þórð af Fréttablaðinu fyrir skrif um eigendur, en það ekki náð fram að ganga vegna andstöðu ritstjórans Ólafs Stephensen.
Hugmyndin er að Kjarninn byggi á margmiðlun og verður sérstaklega hannaður fyrir spjaldtölvur og snjallsíma en hægt verður að nálganst hann á annan rafrænan hátt einnig. Hann verður ókeypis fyrir notendur.