- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Nýjar siðareglur RÚV tóku gildi í júní síðastliðnum, um leið og ný stefna RÚV 2022-2026. Í samanburði við fyrri siðareglur, sem höfðu verið í gildi frá árinu 2016, eru þær nýju stuttar og laggóðar. Eftirtektarvert er að í þeim nýju er siðanefnd sú, sem starfaði samkvæmt fyrri reglum, lögð niður, og umdeilt ákvæði um tjáningu starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum er þar ekki lengur að finna.
Bæði þessi atriði – siðanefndin og ákvæðið um tjáningu á samfélagsmiðlum – urðu umdeild ekki síst meðal starsfólks RÚV eftir að siðanefndin úrskurðaði Helga Seljan, þá fréttamann RÚV, sekan um alvarlegt brot á þágildandi siðareglum RÚV fyrir ummæli sem hann lét falla á Facebook þar sem hann svaraði fyrir sig eftir að útgerðarfyrirtækið Samherji hóf ófrægingarherferð gegn honum (til upprifjunar má lesa um málið t.d. í þessari umfjöllun Stundarinnar frá því í mars 2021). Í framhaldi af þessu ákvað Helgi að segja upp starfi sínu hjá RÚV, enda taldi hann stjórnendur RÚV hafa brugðist sér, þ.e. ekki stutt við bakið á sér með tilhlýðilegum hætti þegar stórfyrirtæki réðst í herferð gegn starfsheiðri sínum og persónu.
Stefán Eiríksson tók við sem útvarpsstjóri snemma árs 2020. Press.is átti við hann samtal nú í vikunni um nýju siðareglurnar. Fyrst var hann spurður hvort hann væri sammála þeirri fullyrðingu Helga Seljan að stjórnendur RÚV hefðu brugðist sér.
„Já, ég held að við höfum kannski ekki staðið alveg nógu þétt við bakið á þeim fréttamönnum og öðrum starfsmönnum sem lentu í þessum ótrúlegu hremmingum [fyrir það eitt] að hafa verið að sinna sinni vinnu,“ segir Stefán og bætir við:. „Það held ég að hafi ekki tengst bara þessum siðareglum eða þessu tiltekna máli heldur ýmsu öðru, eins og t.d. aðgengi að og afhendingu á gögnum til þessa aðila, sem misnotaði það efni síðan sem varð til þess að við tókum fyrir það að láta efni af hendi í eigin framleiðslu þessa fyrirtækis á „fréttum“.“
Í nýju siðareglunum er ekkert ákvæði lengur að finna um tjáningu starfsfólks RÚV á samfélagsmiðlum. Stefán var spurður hvort það væri rétt skilið að nýju reglurnar hefðu orðið til í kjölfar betra samráðs við starfsfólkið sjálft en tilfellið var með reglurnar frá 2016?
„Ég þekki kannski ekki nægilega vel aðdraganda fyrstu reglnanna á sínum tíma, en þekki þau gögn sem eru tiltæk hér um akkúrat það – í báðum tilvikum var það hópur hér innanhúss sem vann ákveðin drög. Þegar ég kem hingað 2020 var þegar komin í ferli vinna við endurskoðun á siðareglunum,“ segir Stefán og vísar til þess að ákvæði í þjónustusamningi RÚV ohf. kveði á um að siðareglur skuli endurskoðaðar „eigi sjaldnar en á fimm ára fresti“. Þegar hér var komið sögu hafi því „klárlega verið kominn tími á endurskoðun“.
Stefán rekur að það sé vissulega rétt að þegar vinna við endurskoðun siðareglnanna hófst hafi verið komin fram ýmis gagnrýni á efni fyrri reglna – „og af því þú nefnir sérstaklega þetta sem snýr að orðalaginu um samfélagsmiðlana hafði sú gagnrýni meðal annars komið fram hjá Páli Þórhallssyni lögfræðingi í grein [sem var birt í september 2020] þar sem var verið að fjalla almennt um tjáningarfresli opinberra starfsmanna, þar sem gagnrýnt var að þetta væri allt of fortakslaust ákvæði og gengi of langt, eins og það stæði væri það farið að ganga á annan rétt fólks.“
Stefán bætir við að annað sem líka hafi verið til skoðunar væri sú ráðstöfun fyrri reglna að setja á laggirnar sérstaka siðanefnd sem var í raun óháð RÚV í þeim skilningi að hún tók bara við málum sem var vísað til hennar og kvað upp sínar niðurstöður í þeim. Með þessu „ertu auðvitað búinn að taka svolítið framfyrir hendurnar á stjórnendum sem hafa annars þetta hlutverk að vega og meta hvort farið sé að þeim innri reglum sem hér gilda um starfsemina,“ segir útvarpsstjóri.
Þriðja atriðið sem nauðsynlegt hafi reynzt að skoða þegar siðareglurnar voru endurskoðaðar var samspil siðareglnanna sjálfra, sem taka yfir starfsemi RÚV í heild sinni, og sérstakra vinnureglna sem gilda um fréttir og dagskrárefni tengt þeim. Ákveðið misræmi hafi verið þarna á milli. Byrjað hafi verið á því að endurskoða vinnureglurnar um fréttir og dagskrárefni tengt þeim, en þær voru gefnar út endurskoðaðar í desember 2020. Um þessar reglur segir Stefán:
„Þarna er réttilega fjallað um að þeir sem vinna hjá RÚV og eru að sinna fréttum og dagskrárgerð þurfa að gæta að því að það sé hafið yfir allan vafa að þeir séu hlutlægir og óhlutdrægir í sinni umfjöllun og séu ekki að tjá sig opinberlega, hvort heldur sem er á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti, um einhver mál sem viðkomandi er síðan að skrifa um og fjalla um. Um þetta atriði eru allir sammála.“ Það sé „grundvallaratriði ef þú ert að reka fréttastofu eða sinna dagskrárgerð að þú sért ekki að taka efnislega afstöðu“ til umfjöllunarefnisins hverju sinni.
Eins og áður segir er í nýju siðareglunum siðanefnd sú sem starfaði samkvæmt fyrri reglum lögð niður. Hafa ber í huga að þrátt fyrir að fréttamenn RÚV hafi allt þar til fyrr á þessu ári haft sitt eigið stéttarfélag, aðskilið frá BÍ, þá hafa siðareglur BÍ frá upphafi náð til starfsemi allra fjölmiðla á Íslandi. Hefð er fyrir því allt aftur til ársins 1982 að málum sem varða vinnubrögð fréttamanna Ríkisútvarpsins sé vísað til úrskurðar hjá siðanefnd BÍ. Spurður hvort í afnámi ákvæðisins um sér-siðanefnd RÚV felist endurnýjuð viðurkenning á lögsögu siðanefndar BÍ í málum sem varða fréttamenn og dagskrárgerðarfólk á RÚV segir Stefán afdráttarlaust: „Að sjálfsögðu gilda siðareglur BÍ líka um þá sem starfa á þeim grunni hér hjá RÚV. Ég hef engar efasemdir um lögsögu siðanefndar BÍ um það sem snýr að okkar fólki.“
Í nýju reglunum segir í 10. grein um eftirfylgni: „Um brot gegn siðareglum þessum og afleiðingar slíkra brota fer eftir eðli máls hverju sinni. Útvarpsstjóri, eða eftir atvikum stjórn Ríkisútvarpsins ef málefnið varðar útvarpsstjóra sjálfan, skal þó ávallt hafa endanlegt ákvörðunarvald.“
Spurður út í þetta segir Stefán að það sé í rauninni í höndum hvers og eins stjórnanda að taka á ásökunum sem upp koma um meint brot á siðareglum. Og útvarpsstjóri geti komið að endanlegri ákvarðanatöku í slíkum málum, ef þannig ber undir. Hann tekur fram að reglurnar nái til alls starfsfólks þessa fjölmenna vinnustaðar, ekki bara þeirra sem vinna með fréttir og dagskrárefni, og meint brot geti varðað allt mögulegt í hegðun fólks. Um leið og siðareglurnar voru endurskoðaðar voru jafnframt reglur um meðferð kvartana uppfærðar. Með þessu hafi misræmi í fyrra regluverki verið upprætt. „Það þarf að tryggja að hlustað sé á kvartanir og athugasemdir; að öll mál fái viðeigandi meðferð og komist sé að niðurstöðu,“ áréttir hann.
Spurður hvort reynt hafi á það, síðan nýju reglurnar tóku gildi í júní sl., hvort mál hafi komið til hans skipta í samræmi við það sem kveðið er á um í 10 greininni, segir hann svo ekki vera; honum sé reyndar ekki kunnugt um nein ný tilvik meintra brota á siðareglum. Enda hafi slíkt heyrt til algjörra undantekninga, einnig í gildistíð fyrri reglna.
Stefán vill að lokum undirstrika mikilvægi þess að markmið siðareglnanna séu höfð í huga, en í fyrstu grein þeirra segir: „Siðareglur þessar fela í sér viðmið um hátterni starfsfólks Ríkisútvarpsins. Tilgangur þeirra er að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á starfsemi Ríkisútvarpsins.“
Þessi viðmið sem þarna sé kveðið á um séu ekki síst viss „grunnur að samtali hér innanhúss um siðferðileg viðmið í okkar umhverfi innávið og útávið,“ segir Stefán. „Með þessu er verið að ýta undir samtal um þessi viðmið og ákveðna umbótahugsun sem hefur kannski ekki alltaf verið fókusinn þegar er verið að tala um siðareglur,“ segir Stefán, og bætir við að lokum: „Ég hef heldur ekki séð að það skorti neitt á það að starfsfólkið hér sé bæði vel upplýst um þessi viðmið og um sitt hlutverk og mikilvægi þess að gæta að því trausti sem almenningur ber til okkar og hefur gert í áraraðir. Það er lykilatriði fyrir okkur að varðveita þetta traust og reyna að byggja það upp og efla enn frekar.“