Novaja Gazeta svipt útgáfuleyfi

Áður en Basmanny-héraðsdómstóllinn í Moskvu, sem oft annast umdeild pólitísk mál, kvað upp úrskurð sinn lýsti ritstjórinn, Nóbels-friðarverðlaunahafinn Dmitry Muratov, í kaldhæðni von um "stórkostlegan sigur réttlætisins". Eftir að úrskurðurinn féll lét aðstoðarritstjórinn Sergei Sokolov hafa eftir sér að rússnesk stjórnvöld væru staðráðin í að þagga alveg niður í fjölmiðlinum. 

Í yfirlýsingu sem Novaja Gazeta birti síðan segir að verið sé að "drepa dagblaðið, stela þrjátíu ára vinnu af starfsfólki þess og svipta lesendur réttinum til upplýsinga." 

Ákæruvaldið sakaði Novaja Gazeta um að leggja ekki fram öll gögn sem miðlinum bar í tengslum við eigendaskipti árið 2006. 

Útgáfuleyfissviptingunni var haldið til streitu jafnvel þótt blaðið hafi sjálft brugðið á það ráð strax í mars sl. að hætta prentútgáfu vegna þrýstings frá stjórnvöldum í tilefni af gagnrýnni afstöðu blaðsins til innrásar Rússa í Úkraínu. 
 

Sjá nánar t.d. hér: https://www.reuters.com/business/media-telecom/court-shuts-down-novaya-gazeta-one-russias-last-independent-media-2022-09-05/