- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Evrópusamband blaðamanna (EFJ) gagnrýndi í gær bresk stjórnvöld harðlega fyrir að þrýsta í gegn lögum í miklum flýti sem lúta að meðferð upplýsinga og varðveislu þeirra. Með þessu geta stjórnvöld nú fengið meiri aðgang að persónuupplýsingum einstaklinga og viðkvæmum gögnum sem blaðamenn eru að vinna með. Það er áfall að sjá bresk stjórnvöld þvinga í gegn lög sem hafa í raun verið nýlega gerð ómerk af Evrópustómstóli, segir Ricardo Gutierrez framkvæmdastjóri EFJ. Við höfum mjög miklar áhyggjur af því að svona íþyngjandi lagasetning muni brjóta á friðhelgi einkalífs borgara auk þess sem blaðamenn sem iðulega þurfa að vernda viðkvæmar upplýsingar eru settir í mjög erfiða stöðu, segir Gutierrez ennfremur. EFJ er í þessu að fylgja eftir fyrri mótmælum NUJ, breska Blaðamannasambandsins, sem hefur lagst gegn þessum lagabálki af miklum þunga.
Sú aðgerð Evrópudómstóls sem Gutierrez nefnir hér að ofan vísar í ákvörðun Mannréttindadómstóls ESB sem úrskurðaði í apríl að tilskipun framkvæmdastjórnar ESB um varðveislu upplýsinga (Directive 2006/24/EC) væri ógild þar sem hún bryti í bága við persónuverndarákvæði í mannréttindalögum. Sömuleiðis kom fram í úrskurði dómsins að tilskipunin tryggði ekki að ákvæði hennar yrðu ekki misnotuð eða að óviðkomandi gætu komist að viðkvæmum upplýsingum. Bresku lögin byggja hins vegar á þessari tilskipun.