- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í tillögu að fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla fyrir árin 2024-30, sem lögð var fram í samráðsgátt stjórnvalda í dag birtist sú framtíðarsýn stjórnvalda að „fólk hafi greiðan aðgang að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem miðla fréttum, samfélagsumræðu og menningu.“ Í stefnunni segir einnig að meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar sé að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku hér á landi með því að auka fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum. Þá er stefnt að því að skapa starfsumhverfi sem stuðlar að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku ólíkra og fjölbreyttra fjölmiðla um allt land.
Ég fagna því að stjórnvöld staðfesti með þessum hætti mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi og lýsi þvi um leið yfir að nauðsynlegt sé að grípa til margvíslegra aðgerða til þess að tryggja að hér fái þrifist öflugir, sjálfstæðir fjölmiðlar. Þetta er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð sem framundan er við endurreisn íslenskra fjölmiðla, sem undanfarin ár hafa glímt við óeðlilega samkeppni við erlenda tæknirisa um auglýsingatekjur og horft upp á markaðshrun. Við erum ekki eina þjóðin sem þarf að horfast í augu við gjörbreyttar forsendur fyrir rekstri fréttamiðla, fækkun blaðamanna og gjaldþrot fjölmiðlafyrirtækja. Við erum hins vegar ein sú minnsta, og með tungumál sem afar fáir tala, og því eru áhrifin hér enn meiri en víða annars staðar, og afleiðingarnar eftir því.
Sem betur fer virðast vestræn ríki í auknum mæli gera sér grein fyrir því að á meðan þessu umbreytingaskeiði stendur þurfa fréttamiðlar stuðning. Nú standa víða yfir samningaviðræður við tæknirisana Google og Facebook, um greiðslur til fréttamiðla vegna efnis sem deilt er á samfélagsmiðlunum. Upphæðirnar sem hagfræðingar hafa fundið út að tæknirisarnir skuldi fréttamiðlum eru gígantískar. Samkvæmt nýlegum útreikningum ættu fyrirtækin tvö að greiða bandarískum fjölmiðlum 12 milljarða dollara árlega, fyrir dreifingu á höfundarvörðu efni þeirra. Út frá höfðatölu myndi það reiknast sem svo að íslenskir fréttamiðlar ættu að fá greitt um einn og hálfan milljarð króna árlega frá Facebook og Google. Þeir samningar sem fyrirtækin hafa gert við fréttamiðla, t.a.m. í Ástralíu og Kanada, eru trúnaðarmál, en sérfræðingar telja að upphæðirnar séu aðeins brot af því sem réttlátt væri gagnvart fréttamiðlunum. En þangað til tæknirisarnir fara að borga, og á meðan ástandið er jafn ósjálfbært og raun ber vitni, þurfa stjórnvöld að stíga upp og grípa til allra tiltækra aðgerða til stuðnings fréttamiðlum.
Í drögum að fjölmiðlastefnu eru settar fram 29 aðgerðir og áherslur. 10 þeirra miðast við að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sú fyrsta er að festa í sessi rekstrarstyrki til einkarekinna miðla. Áætlað er að styrkirnir nemi tæplega 370 milljónum árlega, sem er ögn lægri upphæð en þeir hafa verið undanfarin ár. Upphæðin er hins vegar umtalsvert lægri en hinar Norðurlandaþjóðirnar verja til beinna styrkja til einkarekinna miðla, að undanskildu Finnlandi, þar sem slíkt kerfi er ekki við lýði. Svíar eru með hæstu styrkina miðað við höfðatölu, um 40 prósentum hærri en Íslendingar. Miðað við Svíana ættu styrkir hér að vera um 150 milljónum hærri á ári, um 520 milljónir, en að sjálfsögðu ættum við að vera enn hærri, því ástandið hér er enn viðkvæmara sökum smæðar. 700 milljónir árlega eru að mínu mati ekki fjarri lagi.
Önnur tillaga stjórnvalda miðast við að einkareknum miðlum verði veitt tímabundin undanþága frá greiðslu 70% tryggingagjalds. Í skýrslunni er áætlað að aðgerðin geti sparað fjölmiðlum 250 milljónir árlega, sem er umtalsverð upphæð í samanburði við rekstrarstyrki, sem munar talsvert um til viðbótar inn í rekstur íslenskra fréttamiðla. Hins vegar er ekki að finna neinn rökstuðning eða útskýringar á því hvers vegna einungis 70% af tryggingagjaldinu skuli fellt niður, en ekki 100%, sem við köllum að sjálfsögðu eftir.
Ég fagna einnig tillögum um rannsóknar- og þróunarsjóð fyrir fjölmiðla, sem Blaðamannafélagið hefur lengi kallað eftir. Í tillögunni er margt óljóst um áherslur og skilgreiningar skortir en mikilvægt er að fréttamiðlar geti fengið styrki úr sjóðnum til hvers kyns nýrra verkefna, óháð nýsköpunarvægi þeirra heldur einungis á grundvelli þess að fréttamiðillinn er að reyna sig áfram með nýjungar í sínum rekstri eða þjónustu. Það er til að mynda lítið nýsköpunargildi í hlaðvarpsgerð, en kjósi fréttamiðill að gera tilraunir með þá miðlunarleið ætti hann að fá styrk til þess. Annað dæmi er endurnýjun á vef miðils, sem sjóður sem þessi ætti sjálfsögðu að styrkja.
Þá er einnig að finna tillögu um að ráðist verði í lagabreytingu til að tryggja að fjölmðlar fái aukinn hlut í þeim fjárhagslegu verðmætum sem skapast við stafræna dreifingu fréttaefnis á erlendum samfélagsmiðlum og leitarvélum. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun ESB, en ég tel að líta ætti til annarra ríkja, svo sem Ástrala, sem samþykktu lög sem skylduðu tæknirisana og fréttamiðla til að semja um greiðslur frá samfélagsmiðlum til fréttamiðlanna. Þó svo að upphæðirnar hafi ekki verið gefnar upp hefur samningurinn haft veruleg jákvæð áhrif á rekstur fréttamiðla í Ástralíu og störfum í stéttinni hefur fjölgað. Ég tel fyllilega þörf á að skoða kosti og galla slíkrar lagasetningar og möguleg áhrif á íslenska fréttamiðla.
Þá er því lýst að stjórnvöld ætli að móta tillögur að stafrænum þjónustuskatti á tekjur alþjóðlegra tæknirisa. Ísland er í samfloti með 140 OECD ríkjum um reglugerð, sem vonandi lítur dagsins ljós fyrir árslok. Þó svo að ekki komi fram hve gera megi ráð fyrir hárri upphæð í aukna skattheimtu, eru sterk rök sem mæla með því að sú upphæð renni beint til innlendra fréttamiðla, til leiðréttingar samkeppnisskekkju vegna yfirburðastöðu þessara erlendu risa á markaði.
Loks ber að nefna tillögu um að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði til þess að jafna megi samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkismiðlinum. Blaðamannafélagið hefur lengi talað fyrir því að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði, líkt og einkareknu miðlarnir hafa kallað eftir, en jafnframt lagt áherslu á að tekjutapið verði bætt upp, svo tryggt verði að Ríkisútvarpið verði enn sem áður sú öfluga stofnun og mikilvægi fjölmiðill sem hann er í dag. Í tillögunum kemur fram að skipaður verði vinnuhópur sem leggi fram tillögur að útfærslum fyrir lok maí. Fyrr en þær tillögur liggja fyrir er ekki hægt að leggja mat á hvernig ná megi þeim markmiðum sem settar eru fram í aðgerðaáætlun stjórnvalda, að tryggja vandaða og aðgengilega fjölmðlaþjónustu í almannaþágu. Hins vegar er mikilvægt, líkt og fram kemur, að breyta þurfi fyrirkomulagi fjármögnunar RÚV með þeim hætti að ekki sé hægt að beita fjárveitingum til að hafa áhrif á ritstjórnarlegar ákvarðanir eða ógna sjálfstæði Ríkisútvarpsins.
Að síðustu vil ég nefna auglýsingakaup hins opinbera, sem Blaðamannafélagið hefur lengi gert athugasemdir við. Í tillögunum er gert ráð fyrir að ríkisstofnanir sem verja meira en 10 milljónum í auglýsingar á ári skuli gera grein fyrir því hvernig því fjármagni er varið. Ég geri alvarlegar athugsemdir við þessa tillögu. Í fyrsta lagi ætti hún að ná til allra ríkisstofnana, sama hversu lágri upphæð þær verja til auglýsinga. Og í öðru lagi ættu stjórnvöld að setja skilyrðislausar takmarkanir á auglýsingum frá hinu opinbera í erlendum miðlum. Það skýtur mjög skökku við að ríkið sé að styrkja fréttamiðla með beinum hætti í formi styrkja og skattaívilnana vegna þess að erlendir tæknirisar hafa sogað til sín stóran hluta alls auglýsingafjár – á meðan ríkið er sjálft að kaupa auglýsingar hjá umræddum tæknirisum. Það er fullkomlega óeðlilegt að stjórnvöld séu að verja fjármunum í auglýsingar hjá fyrirtækjum sem greiða enga skatta hér á landi, né leggja neitt af mörkum til samfélagsins.
Áfram verður fjallað um fjölmiðlastefnuna á press.is á næstu dögum.