- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, er látinn, 94 ára að aldri. Matthías hefur verið félagi í Blaðamannafélagi Íslands frá árinu 1953, og hafði verið lengst félagi allra núlifandi félagsmanna. Í umsókn Matthíasar kemur fram: Hann fæddist 3. janúar 1930, sonur Haraldar Johannessen, bankafulltrúa, og eiginkonu hans, Önnu Johannessen. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík í júní 1950. Hann stundaði síðan nám við Háskóla Íslands og hefur lokið fyrrihlutaprófi í íslenskum fræðum. Hann gerðist blaðamaður hjá Morgunblaðinu í ágúst 1952 og hefur unnið þar síðan, einkum við erlendar fréttir, segir í umsókninni.
Í æviágripi Matthíasar hér á vef BÍ segir að árið 1955 hafi Matthías lokið kandítatsprófi í íslenskum fræðum með bókmenntir sem aðalgrein. Hann hélt þá til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði framhaldsnám veturinn 1956-1957. Meðfram háskólanámi starfaði Matthías áfram sem blaðamaður við Morgunblaðið og var hann gerður að ritstjóra þess í ágúst 1959, aðeins 29 ára að aldri. Ritstjórastarfinu gegndi Matthías allt til ársins 2001 að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Á ritstjóratíma sínum var Matthías m.a. formaður þjóðhátíðarnefndar 1974 í tilefni af 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Matthías gat sér snemma orð sem blaðamaður fyrir samtöl sín, en eins og segir á vefnum bókmenntir.is þá hefur hann „á löngum ritferli sent frá sér ljóðabækur, leikrit, ritgerðir, viðtalsbækur og ævisögur, þýðingar, annast útgáfur og samið formála að ýmsum ritum, auk fjölbreytts efnis í blöðum og tímaritum“.