- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Fjölmiðlanefnd stendur fyrir opnu málþingi um reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði að
Hannesarholti við Grundarstíg 10, í dag fimmtudaginn 16. maí kl. 14.00 til 16.30. Fjallað
verður um ákvæði laga um fjölmiðla nr. 38/2011 sem gera fjölmiðlum sem sinna fréttum og
fréttatengdu efni að setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði starfsmanna. Fjölmiðlanefnd
telur mikilvægt að stuðla að faglegri umræðu um skyldu fjölmiðla til að setja sér slíkar
reglur og efni þeirra og tryggja að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt útgefenda,
ritstjóra og blaðamanna.
Til umfjöllunar á málþinginu verður m.a. efni og inntak slíkra reglna og hvernig
ritstjórnarlegu sjálfstæði sé best fyrir komið í slíkum reglum. Þá verður rætt um hvort sömu
sjónarmið eigi að gilda um setningu slíkra reglna hvað varðar prentmiðla og ljósvakamiðla,
einkarekna miðla og ríkismiðla, staðbundna fjölmiðla og fjölmiðla sem ætlað er að ná til alls
landsins og frímiðla og áskriftarmiðla? Ber að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði ritstjóra og
blaða og fréttamanna gagnvart eigendum eða á eigendum að vera frjálst að móta og
framfylgja eigin ritstjórnarstefnu? Eru aðrar leiðir hentugri til að tryggja réttindi blaða og
fréttamanna, t.d. í gegnum kjarasamninga eins og gert er á Norðurlöndunum?
Karl Axelsson, settur formaður fjölmiðlanefndar verður fundarstjóri og stýrir jafnframt
pallborði. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar mun fara yfir forsögu og
inntak ákvæðis laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um skyldu til að setja slíkra reglur. Að því
loknu mun Pétur Árni Jónsson, útgefandi Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta fjalla um hvort
reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði eigi rétt á sér. Því næst tekur Ólafur Stephensen, ritstjóri
Fréttablaðsins til máls og fjallar um mikilvægi siðareglna. Að lokum fjallar Björn Vignir
Sigurpálsson blaðamaður og formaður Siðanefndar BÍ um ritstjóra í lykilhlutverkum.
Guðrún Hálfdánardóttir fréttastjóri mbl.is og Anna Kristín Jónsdóttir, stjórnarmaður í Félagi
fréttamanna á Ríkisútvarpinu munu síðan taka þátt í pallborðsumræðum að loknum erindum
ásamt frummælendum.
Málþingið er öllum opið og án endurgjalds.