- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Að frumkvæði Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, fór fram stutt umræða á Alþingi í dag um rannsóknaraðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi eystra gegn fjórum blaðamönnum. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma spurði þingmaðurinn Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í þögn hennar í málinu, þar sem umræddir blaðamenn hafa verið með stöðu sakbornings frá því febrúar vegna rannsóknar lögreglu á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Annar ráðherra ríkisstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson, hefur í tvígang skrifað færslu á Facebook vegna málsins, sem Blaðamannafélagið gerði í bæði skiptin alvarlegar athugasemdir við.
Arndís Anna vísaði í fyrirspurn sinni sérstaklega til þess að við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins í lok síðasta árs hafi forsætisráðherra gerst yfirmaður málaflokks mannréttinda og mannréttindasamninga. Þess vegna hafi „þögn hæstvirts forsætisráðherra í þessu máli verið eftirtektarverð. Hér eru undir grundvallarmannréttindi. Tjáningarfrelsi blaðamanna, lífæð lýðræðisins. Lögreglan misnotar vald sitt til að þagga niður í blaðamönnum fyrir að flytja fréttir. Hæstvirtur fjármálaráðherra mætti á sviðið til að segja fjölmiðlamönnum að hunskast bara í yfirheyrslur og hætta að vera svona góð með sig,“ sagði Arndís Anna og spurði forsætisráðherra hvort hún hefði engar áhyggjur af þessari atburðarás. „Telur hún ekkert athugavert við vinnubrögð lögreglunnar eða er hún sammála afstöðu hæstvirts fjármálaráðherra?“
Forsætisráðherra kvaðst ekki hafa þagað um þessi mál, og vísaði til þess að árið 2011 hafi að hennar frumkvæði verið innleidd sú réttarbót í fjölmiðlalög að blaðamönnum beinlínis bæri að upplýsa ekki um heimildamenn sína ef hinir síðarnefndu óska slíkrar verndar. Katrín sagði að lögreglan verði að vera meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinast gegn fjölmiðlum geti haft fælingaráhrif gagnvart þeim. „Því ber lögreglunni að fara sérstaklega varlega þegar um er að ræða frjálsa fjölmiðla sem eru að fjalla um viðkvæm mál í samfélaginu í sínum rannsóknum.“
Nánar er fjallað um málið í þessari frétt Kjarnans.is, en horfa má á upptöku af umræðunni hér á vef Alþingis.