- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um framhald styrkja til einkarekinna fjölmiðla var lagt fram á Alþingi í dag, föstudag, en frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn fyrr í vikunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir framlengingu á gildistíma þessa fyrirkomulags um tvö ár, og á þeim tíma skuli kerfið endurskoðað með hliðsjón af því hvernig stuðningi við fjölmiðla er háttað á hinum Norðurlöndunum.
Fyrstu fréttir af frumvarpinu eftir að ríkisstjórnin afgreiddi það á þriðjudaginn kváðu gildistíma framlengingar laganna hafa verið styttan í eitt ár, sem samkvæmt heimildum Kjarnans endurspeglaði þá andstöðu sem til staðar væri við frumvarpið innan ríkisstjórnarinnar, en hún komi „fyrst og síðast frá ráðherrum Sjálfstæðisflokks“.
Samkvæmt frumvarpinu á að skipa nefnd sem falið verði að móta framtíðartillögur um fyrirkomulag stuðnings við einkarekna fjölmiðla.
Tæp fimm ár eru nú síðan nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla afhenti ráðherra skýrslu sína með alls sjö tillögum sem gætu bætt rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla. Sú nefnd hafði starfað í meira en ár. Eina tillaga nefndarinnar sem ratað hefur í framkvæmd er umrætt styrkjakerfi sem nú á að framlengja til eins árs.
Í frumvarpinu kemur fram að stefna stjórnvalda væri að innan gildistíma laganna yrði „lagt fram nýtt frumvarp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Á málþingi sem Blaðamannafélag Íslands og Rannsóknarsetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands stóðu fyrir í febrúar síðastliðnum boðaði Lilja að hún vildi fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla. Í Danmörku er DR, danska ríkissjónvarpið, ekki á auglýsingamarkaði og stutt er við einkarekna fjölmiðla með nokkrum mismunandi leiðum með það að markmiði að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.