- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Á samfélagsmiðlum hefur undanfarna daga verið nokkur umræða um fjandsamlega afstöðu stjórnmálamanna til fjölmiðla og uppástungur komið fram um að tekið verði saman hverjir og með hvaða hætti íslenskir stjórnmálamenn hafi hótað eða gagnrýnt fjölmiðla og einstaka fjölmiðamenn. Oftast má rekja viðbrögð stjórnmálamana til þess að þeir telji viðkomandi fjölmiðla eða fjölmiðlamenn ekki segja frá af hlutlægni. Raunar er það athyglisvert einkenni á íslensku fjölmiðlaumhverfi hve litla tiltrú stjórnmálamenn hafa á faglegum vinnubrögðum fréttamanna á landsdekkandi miðlum. Óháð því hvort eða að hve miklu leyti menn vilja taka mark á þessum skoðunum stjórnmálamanna á fjölmiðlum, þá er þetta vantraust á fagmennsku mikilvægt einkenni á fjölmiðlaumhverfinu og kemur til viðbótar því litla trausti sem mælist hjá almenningi á fjölmiðlum t.d. í könnunum MMR. Í nýlegri grein Birgis Guðmundson um stjórnmál og fjölmiðla sem birtist á Þjóðarspegli, Félagsvísindastofnunar H.Í. kemur fram að tiltrú sveitarstjórnarmanna á fjölmiðlum virðist talsvert meiri en tiltrú stjórnmálamanna sem voru í framboði í síðustu Alþingiskosningum, þótt tiltrúin hjá hvorugum hópnum sé mikil. Í þessari grein má sjá mælingar og samanburð á skoðunum stjórnmálamanna (frambjóðenda) í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor og Alþingiskosningunum 2013 til fjölmiðla, hversu hlutlausir/hlutdrægir þeir eru og hvort frambjóðendur telji þá hallast til hægri eða vinstri.