- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Íslensku sjónvarpsstöðvarnar sýna mun minna af erlendum fréttum en sjónvarpsstöðvar í nágrannalöndunum, og er hlutfall erlendra frétta í fréttatímum Sjónvarpsins og Stöðvar 2 með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Þetta kom fram í erindi Rangnars Karlssonar, Valgerðar Jóhannsdóttur og Þorbjörns Broddasonar sem Ragnar flutti á Þjóðarspegi fyrir helgina. Hlutfall erlendra frétta hjá RÚV er 28,2% erlendra frétta á móti 71,8% innlendra frétta og 8,8% erlendra frétta hjá Stöð 2 á móti 91,2% innlendra frétta. Sambærileg hlutföll hjá sjónvarpsfréttastöðvum í nágrannalöndunum eru mun hærri, t.d. var þetta hlutfall í Noregi árið 2007 40% erlendar fréttir hjá NRK og 32% erlendar fréttir hjá TV2.
Umfjöllunarefni erlendra frétta er fyrst og fremst stjórn- og efnahagsmál og náttúruhamfarir hvers konar. Þá er fréttaefnið mjög landfræðilega samþjappað og miðast við Vesturlönd. Þannig eru 47,6% erlendra frétta á íslensku sjónvarpsstöðvunum frá Vestur Evrópu og ESB og ef Bandaríkjunum og NATO er bætt við spanna þessi svæði um 65% af fréttaefninu.
Íslensku stöðvarnar virðast að mati höfunda að einhverju marki fylgja alþjóðlegri tilhneigingu í því að leggja tiltölulega litla áherslu á erlendar fréttir og að heimavæða erlendar fréttir, öfugt við það sem búast hefði mátt við á tímum stóraukinnar alþjóðavæðingar og fjölmenningar.