- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þáttaröðin Lífríkið í sjónum við Ísland eftir þá Erlend Bogason og Pétur Halldórsson fékk í gær fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri fengu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.
Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að þættirnir Lífríkið í sjónum við Ísland séu dæmi um metnaðarfulla þáttagerð þar sem kastljósinu sé beint að heimi undir yfirborði sjávar sem flestum er hulinn. Myndefnið sé einstakt og handritið vel unnið og samvinna höfunda hafi skilað frábærum árangri sem eftir sé tekið og hafi borið hróður þeirra langt út fyrir landsteinana. Verkefnið sé bæði skemmtilegt og fróðlegt og hefur meðal annars sérstöðu að því leyti að það er afrakstur framtaks sem var unnið umfram skyldu, af metnaði og áhuga og aðdáunarverðri seiglu.
Þeir sem höfðu verið tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru:
Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV, sem gerði deiluefni um virkjanakosti í Þjórsá góð skil í sjónvarpsfréttum 17. maí sl.
Iceland Review, sem sagði frá eldgosinu í Holuhrauni í fjölda vandaðra og upplýsandi greina og með ljósmyndum sem komu hrikafegurð eldsumbrotanna og áhrifum þeirra á viðkvæma náttúru vel til skila.
Þáttaröðin Lífríkið í sjónum við Ísland, sem er röð stuttra þátta ætluð til vekja athygli á fjölbreyttu náttúrulífi neðansjávar og sýnd var á sjónvarpsstöðinni N4.