- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Von mín er að þessi ráðstefna um rannsóknarblaðamennsku muni hafa sömu áhrif á Íslandi og varð í Svíþjóð þegar við byrjuðum að halda slíka ráðstefnu fyrir 25 árum," sagði Nils Hanson, ritstjóri fréttaskýringarþáttarins Uppdrag Granskning á sænska ríkissjónvarpinu. Nils var einn af fyrirlesurum á ráðstefnu Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku, sem haldin var á Icelandair Hotel Reykjavík Natura, um síðustu helgi.
Nils Hanson kallaði fyrirlestur sinn Stafróf rannsóknarblaðamennskunnar eða ABC of Investigative Journalism. Hann útskýrði þar vinnuferli rannsóknarblaðamennskunar frá því að blaðamaðurinn byrjar að grafa og þar til fréttin er tilbúin. Nils hefur flutt þennan fyrirlestur víða enda óhætt að segja að hann hafi verið byggður upp eins og kennslustund í rannsóknarblaðamennsku. Nils segir að eftir því sem fleiri blaðamenn sjái möguleika aðferðarfræði rannsóknarblaðamennskunnar og mikilvægi hennar fyrir samfélagið, því fleiri taki upp slík vinnubrögð. Það sé mjög gefandi fyrir blaðamenn.
Sú vakning sem orðið hefur í Svíþjóð er mjög miklvæg. Við sjáum nú blaðamenn allastaðar vera að grafa", allt frá litlum héraðsfréttablöðum til stærri landsmálablaða og það þrátt fyrir að efnahagsástandið sé ekki upp á marga fiska. Það er von mín að slík vakning - þar sem blaðamenn hjálpa blaðamönnum - verði einnig á Íslandi."
Nils fór í fyrirlestri sínum yfir verkferla sem auðvelda blaðamönnum að halda utan um vandmeðfarin og flókin mál þannig að þeir stofni ekki sjálfum sér né öðrum í hættu. Einnig benti hann á að nauðsynlegt sé að gæta skynsamlegs utanumhald eins og skráningu samtala og gagna sem aflað er. Meðal annars til að koma í veg fyrir að blaðamenn verði rengdir eftirá.
Uppdrag Granskning þættirnir hafa margir hverjir vakið gríðarlega athygli bæði í Svíþjóð og víðar, og skemmst er að minnast stórra mála eins og umfjöllunar Sven Bergmans og Fredriks Laurin um fangaflutninga CIA og TeliaSonera svo dæmi séu tekin. Bæði Nils og kollegar hans hafa unnið fjölda blaðamennskuverðlauna fyrir fréttaskýringar í þættinum.