Krefjast þess að rússneskum varaformanni IFJ verði vikið úr embætti

Blaðamannafélögin á Norðurlöndunum sendu í morgun mótmæli til stjórnar Alþjóðlegu blaðamannasamtakanna, IFJ, þar sem þau lýstu andúð sinni á því að varaformaður IFJ lýsti um helgina opinberlega stuðningi við ritskoðun rússneskra stjórnvalda á umfjöllun þarlendra fjölmiðla um innrás Rússa í Úkraínu, og kröfðust þess að honum yrði vikið úr embætti varaformanns.

Rússnesk stjórnvöld hafa fyrirskipað að rússneskir fjölmiðlar megi ekki lýsa innrásinni sem “innrás” eða “stríði” eða “árás”. Ennfremur er blaðamönnum óheimilt að fjalla um stríðið nema samkvæmt opinberum heimildum rússneskra stjórnvalda. Formaður Blaðamannafélags Rússlands, RUJ, Timur Shafir, sem jafnframt er varaformaður IFJ, lýsti því yfir í fyrradag í rússneskum fjölmiðlum að hann telji það réttlætanlegt að beita ritskoðun á umfjöllun fjölmiðla um innrásina í Úkraínu. Brjóti fjölmiðlar í Rússlandi gegn þessum þvingunum er þeim gert að greiða háar sektir eða eiga jafnvel hættu á að þeim verði lokað.

Yfirlýsing Norrænu blaðamannasamtakanna er eftirfarandi, þýdd úr ensku:

Blaðamannafélög Norðurlandanna, Íslands, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, lýsa alvarlegum áhyggjum af nýlegum yfirlýsingum Timur Shafir, varaformanns IFJ og formanns Rússneska blaðamannafélagsins í endursögn viðtals við vel þekktan rússneskan blaðamann, Vladimir Pozdner, sem birt var 26. febrúar á Telegramrásinni Radiotochka NSN.

Í viðtalinu ræðir Shafir um takmarkanir sem rússneska eftirlitsstofnunin með upplýsingum og fjölmiðlum, Roskomnadzor, hefði lagt á nokkra fjölmiðla. Roskomnadzor sakaði fjölmiðla um að "birta óáreiðanlegar, samfélagslega mikilvægar, ósannar upplýsingar um sprengingar rússneskra hersins í úkraínskum borgum og mannfalli óbreyttra borgara í Úkraínu sem afleiðingar af aðgerðum rússneska hersins”.

Blaðamaðurinn, Vladimir Pozdner, lýsti áhyggjum sínum af kröfum Roskomnadzor um að upplýsingar skulu fjarlægðar úr þegar birtum fréttum og að það lýsti þróun sem gerði öllum blaðamönnum erfitt fyrir um að vinna starf sitt. Í stað þess að fordæma ritskoðun stjórnvalda sagði Shafir að vegna stríðsástandsins hefði Roskomadzor “tilefni til þess að lýsa því yfir að einu upplýsingarnar sem teldust áreiðanlegar væru þær sem kæmu frá [rússneska] varnarmálaráðuneytinu” og þar með lýsti hann í raun samþykki sínu á ritskoðun.

Timur Shafir er varaformaður IFJ og situr í framkvæmdastjórn samtakanna.

Með því að samþykkja ritskoðun stjórnvalda og hindranir á störfum frjálsra fjölmiðla er Shafir að stefna trúverðugleika IFJ í hættu. Eitt helsta hlutverk IFJ er að standa vörð um fjölmiðlafrelsa og aðgang að upplýsingum um heim allan. Starf blaðamanna er sérstaklega áhættusamt á stríðstímum og allir félagar IFJ verða að vinna af fullum hug að því að tryggja öryggi og fagleg heilindi blaðamanna sem fjalla um stríð og átök. Ummæli Shafir í þessu viðtali eru í hrópandi mótsögn við þessi gildi.

Yfirlýsing þessi er skrifuð til að lýsa óaánægju okkar og undirstrika þá staðreynd að við getum ekki samþykkt það að fulltrúi í framkvæmdastjórn IFJ styðji ritskoðun stjórnvalda.

Undirritað:
Tine Johansen, formaður danska blaðamannafélagsins (DJ)
Dag Idar Tryggestad, formaður norska blaðamannafélagsins (NJ)
Ulrika Hyllert, formaður sænska blaðamannafélagsins (SJF)
Hanne Aho, formaður finnska blaðamannafélagsins (UFJ)
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ)