- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kjartan Lárus Pálsson, fararstjóri og blaðamaður lést á Landspítalanum síðastliðinn föstudag. Kjartan fæddist í Keflavík 1939, elsta barn þeirra Páls Ebenesers Sigurðssonar og Ingibjargar Bergmann Eyvindsdóttur. Kjartan stundaði ýmis störf til sjós og lands en hóf ungur að starfa í blaðamennsku og byrjaði að skrifa um íþróttir fyrir Vísi upp úr 1960 undir einkennisstöfunum -klp. Kjartan var síðan í blaðamennsku í aldarfjórðung á Vísi, Tímanum og DV og skrifaði ýmist um íþróttir eða almennar fréttir. Kjartan gerðist síðan fararstjóri fyrir freðaskrifstofur og starfaði við það um árabil bæði í Evrópu og um skeið á Tælandi.
Kjartan var félagi í Blaðamannafélaginu og hafði félagsskíteini nr. 12 þegar hann lést og ræddi Guðrún Guðlaugsdóttir við hann í bókinni „Í hörðum slag – Íslenskir blaðamenn II“, sem Blaðamannafélagið og Sögur útgáfa gáfu út í árslok 2016 í tilefni af 120 ára afmæli BÍ sem var árið 2017.
Kjartan lætur eftir sig eiginkonu, Jónínu S. Kristófersdóttur. Börn þeirra eru Dagbjört L. Kjartansdóttir Bergmann og Jón Bergmann Kjartansson, sem tók sér listamannsnafnið Ransu. Barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin þrjú.