- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blað er brotið í fjölmiðlun með tilkomu Kjarnans sem er vikulegt fréttatímarit sem mun koma út á fimmtudagsmorgnu og verður dreyft með nýjum hætti. Appið kom inn í gær og þar er hægt að lesa kynningareintak af Kjarnanum. Fyrsta alvöru eintak Kjarnans kemur síðan út 22. ágúst en heimasíðan fer í loftið síðar í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum Kjarnans er hann ný tegund fjölmiðils á Íslandi sem ætlað er að sameina kosti blaðamennsku og ljósvakamiðlunar. Að sögn Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra og eins eiganda Kjarnans, verður fjölmiðillinn sjálfstæður, gagnvirkur og skemmtilegur. ,,Kjarninn leggur áherslu á dýpt og gæði. Hann ætlar að fjalla um það sem skiptir máli. Kjarninn ætlar að rannsaka og skýra málin fyrir lesendum," segir í tilkynningu Kjarnans.
Hugmyndin á bakvið Kjarnann kviknaði á vordögum 2013. Fimm vinir settust þá niður saman og hófu umræður um að stofna nýja fjölmiðil á Íslandi. Fjölmiðil sem ætti engan sinn líkan hér á landi, fjölmiðil sem myndi nýta sér nýjustu tækni og sameina helstu kosti blaðamennsku og ljósvakamiðlunar á sama stað. Í hópnum voru bræður, æskuvinir og samstarfsfélagar til margra ára segir í tilkynningu.
Sannfæringin sem dreif þá áfram var sú, að nú væri rétti tíminn fyrir slíkan miðil. Þeir telja að um þessar mundir er eftirspurn eftir nýjum sjálfstæðum fréttamiðli í fjölmiðlalandslag sem fáir virðast treysta, og tækniframfarir á sviði fjölmiðlunar gera þeim nú kleift að búa til miðil algjörlega eftir eigin höfði.
Upphafleg tugmilljóna króna kostnaðaráætlun var skorin við nögl, bæði til að tryggja sjálfstæði miðilsins og gagnsæi segir í tilkynningu. Niðurstaðan varð sú að þeir sem að Kjarnanum standa fjármögnuðum stofnun hans alfarið úr eigin vasa.