- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í hörðum slag, íslenskir blaðamenn II er nafnið á nýrri bók sem Blaðamannafélagið stendur að útgáfu á. Í þessari einstöku bók greina 15 þjóðþekktir íslenskir blaðamenn frá sjónarmiðum sínum og reynslu af blaðamennsku á seinni hluta 20. aldar og upphafi þessarar aldar. Formleg útgáfa bókarinnar var í húsakynnum BÍ í Síðumúlanum sl. föstudag að viðstöddum flestum þeirra sem rætt er við í bókinni. Guðrún Guðlaugsdóttir er höfundur viðtalanna og nær af næmni að skyggnast með viðmælendum sínum baksviðs í frétta- og þjóðmálaumræðu á miklum umbrotatímum í Íslandssögunnar. Þannig gefst einstakt tækifæri til að kynnast samtímis mikilvægum vendingum í fjölmiðlun á Íslandi og kynnast einstaklingum sem öðrum fremur hafa stjórnað upplýsingastreymi til almennings áratugum saman. Viðtölunum fylgja nýjar glæsilegar portrettmyndir Kristins Ingvarssonar af viðmælendum.
Bókin hefur einnig að geyma einstakan ljósmyndakafla sem byggir á fréttaljósmyndasafni Gunnars V. Andréssonar sem hefur skráð með myndrænum hætti sögu þjóðarinnar í 50 ár. Bókinni lýkur á fræðilegri samantekt um fagvæðingu blaðamannastéttarinnar, sem Birgir Guðmundsson dósent við Háskólann á Akureyri skrifar, en hann er jafnframt ritstjóri bókarinnar.
Þeir sem rætt er við í bókinni eru: Björn Vignir Sigurpálsson, Magnús Finnsson, Steinar J Lúðvíksson, Kári Jónasson, Ingvi Hrafn Jónsson, Freysteinn Jóhannsson, Árni Johnsen, Jóhanna Kristjónsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Kjartan L. Pálsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Gunnar V. Andrésson, Jóhannes Reykdal, Úlfar Þormóðsson, og Sigurdór Sigurdórsson.
Bókin kemur út í tilefni afmælis Blaðamannafélagsins sem verður 120 ára á næsta ári. Það er Blaðamannafélagið sem gefur út bókina í samvinnu við Sögur útgáfu og Háskólann á Akureyri.