Fréttaskýring um N4

Undir yfirskriftinni „Landsbyggðarveldi á völtum fótum“ birtist þann 9. janúar fréttaskýring um sjónvarpsstöðina N4, sem sendir út frá Akureyri. Sunna Valgerðardóttir, einn umsjónarmanna fréttaskýringaþáttarins Þetta helst á Rás 1 (og fulltrúi í stjórn BÍ) vann þessa fréttaskýringu sem Press.is leyfir sér að mæla með fyrir þá sem vilja fræðast um sögu N4 og deiluna um 100 milljón króna styrkinn sem svo ekki var veittur. 

Í kynningu á fréttaskýringunni á Ruv.is segir: 

„Tilraunir stjórnenda landsbyggðamiðilsins N4 til að bæta fjárhag fyrirtækisins komust í sviðsljósið í lok árs. Framkvæmdastjórinn segir allt í uppnámi eftir að 100 milljóna umdeildur styrkur var afturkallaður. N4 var til umfjöllunar í Þetta helst.

N4 var stofnað á Akureyri 2006 og er eini sjónvarpsmiðillinn sem starfar alfarið utan höfuðborgarsvæðisins. Þau halda úti sjónvarpi, hlaðvarpi, internetrásum og auglýsingablaði. Framleiðslan er mikil og áhorfið líka. N4 skilgreina sig ekki sem fréttastöð. Kostuð umfjöllun er stór hluti af starfseminni og hafa þau stundum verið gagnrýnd fyrir gagnrýnisleysi í umfjöllunum í því ljósi - og að þau séu ekki bara háð voldugum stórfyrirtækjum, heldur eru þau í eigu þeirra.

Það vakti mikið umtal og gagnrýni um miðjan desember þegar í ljós kom að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hafði ákveðið að veita N4 hundrað milljóna króna styrk eftir beiðni þess efnis. Eftir umfjöllun í fjölmiðlum og umræðum á Alþingi var þó hætt við styrkveitinguna, sem gerðist reyndar samdægurs, og ákveðið að láta peningana frekar renna inn í sameiginlegan sjóð sem yrði úthlutað til einkarekinna fjölmiðla. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti VG í Norðausturkjördæmi, er formaður fjárlaganefndar og sagði hún í viðtali við RÚV að ástæða styrkveitingarinnar sé sú að fjölmiðlar á landsbyggðinni standi veikir fyrir, þar séu fluttar öðruvísi fréttir.

„Það skiptir máli að geta flutt staðarfréttir sem eru annars ekki fluttar,“ sagði Bjarkey. En þá ber að taka fram að forsvarsfólk N4 hefur ítrekað sagt að þau segi ekki fréttir, heldur sögur. „Við erum ekki í fréttum,“ sagði framkvæmdastjórinn í viðtali í fyrra. „Við erum ekki fréttastöð,“ sagði dagskrárgerðarmaðurinn fyrrverandi Karl Eskil Pálsson.