- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamennska virðist hafa glatað talsverðu aðdráttarafli sínu í Frakklandi miðað við niðurstöður úr könnun sem gerð var að frumkvæði Sambands blaðamannafélaga þar í landi og stofnunar sem sérhæfir sig í mati á þróun vinnumála. Könnunin sem byggir á gögnum sem aflað hefur verið allt frá árinu 2010 sýnir að breytingar á störfum blaðamanna hafa lamandi áhrif á starfsánægju og um þriðjungur svarenda kveðst tilbúinn til að hætta í faginu. Skýringar á þessu háa hlutfalli liggja að hluta til í ósk fjölmargra blaðamanna um að geta skotið fleiri stoðum undir fjárhagslega afkomu sína og er þetta hlutfall hæst hjá lausafólki. En fjölmargt fleira skiptir máli um minni starfsánægju, m.a. miklar breytingar á starfi blaðamannsins sem gerir hlutverk hans óskýrara, bæði hvað varðar almennt hlutverk og faglega sýn og eins í útfærslu hversdagslegra verkefna á ritstjórnum. Nákvæmlega sambærileg könnun er ekki til fyrir íslenska veruleika en eldri kannanir hafa sýnt að blaðmenn hér eru ánægðir í starfi þrátt fyrir ýmis konar mótlæti. Rétt er að minna á ráðstefnu síðar í vikunni um framtíð miðlunarstarfa þar sem sambærilegir hlutir munu vera til umræðu.