- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
„Það er gleðiefni að það liggi nú fyrir með afdráttarlausum hætti að það er óheimilt að láta starfsmenn annarra stéttarfélaga en þess sem boðar vinnustöðvun vinna meðan hún stendur yfir;“ segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ aðspurður um viðbrögð við dómi félagsdóms sem féll fyrr í dag. Hann segir það þá hér með staðfest af Félagsdómi og viðurkennt, að starfskjaralögin frá 1980 fylli upp í og útskýri það sem ósagt er í 18. grein laga um vinnustöðvanir í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. „Það var nauðsynlegt fyrir okkur að fá úr þessu skorið,“ segir Hjálmar.
Eins og fram kemur í fyrri frétt hér á press.is þá liggur líka fyrir að dómurinn telur að það sé í lagi að tímasetja fréttir fram í tímann og birta þegar vinnustöðvun stendur yfir. Um það atriði segir Hjálmar: „Dómurinn virðist þannig líta á fréttir eins og hvern annan varning sem framleiddur er á lager og birtur eftir hentugleikum. Því er ég innilega ósammála, þar sem allar lögfylgjur frétta og umfjallana í fjölmiðlum fylgja birtingu þeirra, en ekki samningu. Frétt sem skrifuð er fyrir skúffuna er ekki frétt. Dómurinn metur þetta með öðrum hætti og þar með liggur það fyrir“.
Formaður BÍ er greinilega hugsi yfir niðurstöðu dómsins varðandi stöðu verktaka í vinnudeilum. „Í þriðja lagi lítur dómurinn lítur þannig á að verktakavinna sé heimil í löglega boðuðum vinnustöðvunum í þeim tilgangi einum að brjóta þær niður. Það er mér mikið umhugsunarefni og spurning hvort sú staðreynd hefur áhrif á vinnumarkaðnum almennt eða er eingöngu bundin við þá starfsemi sem útgáfa og fjölmiðlun er,“ segir Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannagélagsins.