Fjölmiðlastyrkir - „Danska leiðin“ hennar Lilju

Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.
Titill greinarinnar í Blaðamanninum 1/2022.

Grein eftir Arnar Þór Ingólfsson blaðamann, birt í Blaðamanninum 1/2022

Snemma í febrúarmánuði stóð Blaðamannafélag Íslands, í samstarfi við Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands, fyrir málþingi um opinbera styrki til einkarekinna fjöl‑ miðla. Á meðal þeirra sem héldu tóku þátt í málstofunni var Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, ráðherra fjölmiðlamála í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Ávarp hennar á fundinum þótti nokkuð fréttnæmt fyrir þau sem fylgjast með íslenska fjölmiðlaumhverfinu, en fram kom í máli Lilju að hún vildi beita sér fyrir því að RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði og að horft yrði til Danmerkur sem fyrirmyndar fyrir íslenska fjölmiðlamarkaðinn – „danska leiðin“ yrði fetuð í málefnum fjölmiðla.

„Þrátt fyrir að ég vilji fá handritin heim vil ég fá dönsku fjölmiðlastefnuna,“ gantaðist Lilja við áheyrendur í húsakynnum BÍ í Síðumúla og þau sem fylgdust með streymi frá fundinum. Upptöku af streyminu má nálgast á vef BÍ: https://beint.is/ streymi/press070222.

Lilja sagði að í ráðuneyti hennar yrði rýnt „gríðarlega vel“ í danska lagatexta um málefni fjölmiðla og hljómaði ávarpið eins og vilji ráðherra stæði til þess að fylgja fordæmi Dana í nær einu og öllu, ekki síst hvað opinberar styrkveitingar til fjölmiðla varðar. En hver er þessi „danska leið“ í málefnum fjölmiðla sem ráðherra mærði og sagðist vilja apa eftir hér á landi?

DR ekki á auglýsingamarkaði

Í Danmörku er ríkisútvarp, Danmarks Radio (DR), sem heldur úti sjónvarps- og útvarpsrásum auk fréttavefs á netinu. DR selur ekki auglýsingar, heldur er alfarið fjármagnað með rekstrarframlögum frá hinu opinbera. Árið 2021 nam rekstrarkostnaður DR 3.885 milljónum danskra króna, jafnvirði um 77 milljarða íslenskra króna.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð af fyrirferð danska ríkisins á fjölmiðlamarkaði, því það hefur frá því á öndverðum níunda áratugnum einnig rekið TV2, áskriftarsjónvarpsstöð sem er á auglýsingamarkaði. TV2 er í reynd eina sjónvarpstöðin sem vitir DR samkeppni á sviði ljósvakafrétta. Fram til ársins 2004 var rekstur aðalrásar TV2 fjármagnaður með ríkisfé, en hún er í dag sjálfbær með áskriftarsölu og auglsýingatekjum. Opinbert fé rennur hins vegar til stuðnings svæðisbundnum rásum TV2, sem eru allnokkrar.

Til þess að fjármagna ríkismiðlana í Danmörku hefur lengi verið innheimt sérstakt fjölmiðlagjald, en sú innheimtuleið hefur reyndar verið slegin af frá og með þessu ári. Í staðinn ákvað danska stjórnin að lækka persónuafslátt skattgreiðenda í Danmörku um brot úr prósentustigi. Þessar breytingar á skattkerfinu eiga að duga fyrir öllum opinberum framlögum til fjölmiðla, bæði rekstrarframlögum til ríkismiðlanna og framlögum til einkarekinna miðla.

Margvíslegir styrkir frá 2014

Þeir styrkir sem bjóðast einkareknum fjölmiðlum í Danmörku eru fjölbreyttir. Á áðurnefndri málstofu Blaðamannafélagsins í febrúar fór Ida Willig, prófessor í fjölmiðlafræðum við Hróarskelduháskóla, yfir það hvernig hið opinbera hefur komið að styrkveitingum við fjölmiðla landsins a undanförnum árum.

Hún ræddi um hvernig í Danmörku hefði löngum verið breiður stuðningur á pólitíska sviðinu við það að styðja við fjölmiðla, til þess að leiðrétta þann markaðsbrest sem væri til staðar í fjölmiðlarekstri á litlu málsvæði eins og því danska og tryggja öfluga lýðræðislega umræðu í landinu. Í þessu skyni hafa dönsk stjórnvöld hafa stutt fjárhagslega við einkarekna fjölmiðla frá því um miðjan fyrsta áratug aldarinnar. Upphaflegu fjölmiðlastyrkirnir beindust einungis að prentmiðlum, en þar var um að ræða dreifingarstyrki til útgáfufyrirtækjanna.

Þegar komið var inn á síðasta áratug var ákveðið að útvíkka styrki við einkarekna miðla í Danmörku og formi styrkjanna var breytt með lögum, mediestøtteloven, sem tóku gildi árið 2014. Þá var dreifingarstyrkjum fyrir prentmiðlana skipt út fyrir framleiðslustyrki, sem gerði fjölmiðla styrkhæfa óháð því hvort þeim var dreift á prenti eða á netinu. Ríkið byrjaði þannig að styrkja sérstaklega vinnslu fjölmiðlaefnis, en ekki einungis pappírskaup og dreifingu.

Þessir framleiðslustyrkir, sem fela í sér að allt að 35 prósenta endurgreiðslu á ritstjórnarkostnaði, eru langstærsti hluti styrkjakökunnar í Danmörku, en einnig hefur sérstökum nýsköpunarstyrkjum verið veitt til einkarekinna danskra miðla, sem bæði eru ætlaðir til þess að styðja við nýja miðla og nýsköpunarverkefni innan rótgrónari miðla. 

Árið 2014 og nokkur ár þar á eftir voru einnig veittir sér‑ stakir aðlögunarstyrkir til fjölmiðla sem höfðu verið styrkhæfir samkvæmt eldra styrkjakerfi, en þeir hafa fjarað út síðan. Þá voru skrifaðir inn í lögin sérstakir styrkir fyrir fjölmiðla í alvarlegum rekstrarvanda, en þeir hafa aldrei verið veittir.

Ný stefna, fleiri styrkir og skattlagning streymisveitna

Þegar Willig hélt erindi sitt á fundinum í febrúar hafði ríkisstjórn Sósíaldemókrataflokksins skömmu áður lagt fram tillögur að nýrri fjölmiðlastefnu, sem fól í sér nokkur nýmæli. Samkomulag sem byggði að stærstum hluta á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar var svo formlega samþykkt í maí, með stuðningi rauðu vinstriblokkarinnar í danska þinginu og reyndar Kristilegra demókrata að auki.

Á meðal þess helsta sem til stendur að ráðast í samkvæmt stefnunni er að veita auknu fé til staðbundinna miðla, til að koma í veg fyrir að í landinu myndist það sem kallaðar eru „fréttaeyðimerkur“ – svæði þar sem fáir eða jafnvel engir fjölmiðlar eru starfandi. Það á að gera með því að lækka almennt þak framleiðslustyrkja til einstakra miðla úr jafnvirði 350 milljóna íslenskra króna niður í 250 milljónir, en hækka þakið á greiðslum til staðbundinna fjölmiðla eða landsbyggðarmiðla upp í jafnvirði 370 milljón. Hámarksstyrkir til fjölmiðlasamstæðna geta numið allt að 90 milljónum danskra króna, eða 1,8 milljarði íslenskra króna.

Til viðbótar á að koma á fót nýjum sjóði sem minni bæjareða héraðsmiðlar geta sótt í, að því gefnu að þeir komi út vikulega hið minnsta og framleiði sjálfstætt ritstjórnarefni. Á næsta ári á að setja jafnvirði 815 milljóna íslenskra króna í þennan sjóð, en boðað er að á árunum 2024 og 2025 verði upphæðin enn hærri, eða milljarður íslenskra króna.

Einnig er stefnt að því að innheimta ný gjöld af streymisveitum, sem eiga að nema 6 prósentum af veltu fyrirtækjanna í Danmörku. Þessi nýja skattheimta er kölluð „menningarframlag“ eða kulturbidrag og segjast dönsk stjórnvöld ætla að láta helming þess sem komi í kassann renna til framleiðslu ríkisfjölmiðla á innlendu efni og hinn helminginn til sjálfstæðrar framleiðslu á dönsku menningarefni. Lagafrumvarp um þetta var lagt fram til samráðs af ráðherra menningarmála í ágústmánuði, en áður en samráðið hófst höfðu raunar bæði streymisveiturnar Netflix og Viapay lýst því yfir að þær hygðust hætta að framleiða danskt efni, í mótmælaskyni.

Að auki var kveðið á um það í stefnu danskra stjórnvalda að breyta ætti svokölluðum nýsköpunarstyrkjum, þannig að öll miðlun fjölmiðlaefnis verði styrkhæf, óháð því hvort hún fer fram með rituðu máli, myndskeiðum, hlaðvörpum. Til stendur að jafnvirði um 600 milljóna íslenskra króna verði úthlutað úr nýsköpunarsjóðnum árlega, en fyrirtæki sem velta yfir 5 milljörðum íslenskra króna geta ekki sótt um styrki af þessu tagi.

Starfshópur skoðar frekari breytingar

Í dönsku fjölmiðlastefnunni, eða hinu pólitíska samkomulagi um hana, var einnig samþykkt að setja af stað vinnu við að gera frekari breytingar á því styrkjakerfi við danska fjölmiðla sem verið hefur við lýði undanfarin ár. Lýstu aðilar að samkomulaginu sig þannig sammála að setja á fót algjörlega nýtt kerfi fjölmiðlastyrkja, sem gæti stutt við stafræna þróun, nýjar miðlunarleiðir, frekara fjölræði á fjölmiðlamarkaði og nýsköpun hjá dönskum miðlum.

„Fjölmiðlanotkun Dana er að breytast, og æ færri Danir lesa prentuð fréttablöð. Það er mikilvægt að fjölmiðlastyrkir styðji við miðlunarleiðir sem höfða til Dana. Á sama tíma verðum við að fara varlega í að gera stórar breytingar, sem gætu kippt fótunum undan fjölmiðlunum sem fá fjölmiðlastyrki í dag,“ segir í stefnuplagginu.

Nefnd sérfræðinga og fulltrúa fjölmiðlafyrirtækja átti að ráðast í þessa vinnu og gera tillögur að umbreytingu danska styrkjakerfisins.

Nýtt frumvarp án fyrirsjáanleika senn lagt fram á Alþingi

En hvað líður yfirlýstum áformum ráðherra fjölmiðlamála um að innleiða dönsku leiðina til Íslands? Af þeim hefur lítið heyrst. Í októbermánuði kom þó fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda um tveggja ára framlengingu þess fyrirkomulags sem verið á styrkjum til einkarekinna fjölmiðla frá því að stuðningskerfinu var komið á 1. ágúst 2021.

Í greinargerð þess frumvarps er fjallað um væntar breytingar á stuðningskerfum við einkarekna fjölmiðla í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og þeim lýst sem „gífurlega miklum“ af hálfu ráðuneytisins. Í því ljósi var lagt til að framlengja núverandi fyrirkomulag um einungis tvö ár, með það að markmiði að innan þess tíma yrði lagt fram annað frumvarp til fimm ára sem væri þá í takt við þá þróun sem væri að verða á hinum Norðurlöndunum.

Í samráðsgátt stjórnvalda bárust nokkrar umsagnir um frumvarpsdrögin, meðal annars frá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, mbl.is og K100, sem gagnrýndi að stuttur gildistími styrkjakerfisins drægi úr fyrirsjáanleika í rekstri fjölmiðla.

Forsvarsmenn útgáfufélagsins sögðu það „sérstaklega óheppilegt“ þegar um væri að ræða ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla því að með skömmum gildistíma væru „þessi mál til stöðugrar umfjöllunar sem getur sett frjálsa fjölmiðla í óheppilega stöðu gagnvart stjórnvöldum“ – hafa þyrfti í huga að meðal mikilvægra hlutverka frjálsra fjölmiðla væri að veita stjórnvöldum aðhald.

Ekki var brugðist við þessum óskum um aukinn fyrirsjáanleika fyrir útgefendur, samkvæmt því frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi, en þar er gengið út frá því að stuðningsákvæðin verði látin gilda til tveggja ára. Samkvæmt því sem heyrst hefur af umræðum um málið á fundi ríkisstjórnarinnar var þar einnig rætt um skipan nýs hóps til þess að móta tillögur um skipulag stuðnings við einkarekna fjölmiðla.

Vert er að benda á að innan við fimm ár eru síðan að nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla afhenti ráðherra skýrslu sína. Einungis hefur verið ráðist í eina af þeim sjö aðgerðum sem þar voru lagðar til, þær beinu endurgreiðslur ritstjórnarkostnaðar sem nú er útlit fyrir að verði framlengdar til tveggja ára í viðbót.

Höfundur er blaðamaður á Kjarnanum.