- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær konu af kröfu Péturs Gunlaugssonar um miskabætur vegna meiðyrða vegna hlekks sem hún deildi á Facebooksíðu sinni frá síðunni sandkassinn.com. Var deilingin talin lýsa skoðun og rúmast innan heimilda um tjáningarfrelsi. Í úrskurði Héraðsdóms segir að hlekkurinn hafi birtist á fésbókarsíðu stefndu í formi forskoðunar á því efni sem vísað var til á síðunni. Birtist þannig andlitsmynd af stefnanda sem hafði verið skeytt saman við afturenda á asna með fyrirsögninni ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins, en við færslu sína hafði stefnda sjálf ritað orðin ,,ha ha ha.
Í rökstuðningi dómsins segir m.a.:
Þótt á það verði fallist með stefnanda að ekki sé útilokað að gildisdómar geti varðað refsingu sem móðganir samkvæmt 234. gr. hegningarlaga, verður engu að síður að leggja til grundvallar að stefnda hafi við fyrrgreindar aðstæður haft ríkulegt svigrúm til að tjá skoðun sína á stefnanda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu eða koma skoðunum annarra um þetta efni á framfæri. Er þá litið til þess að efni umrædds pistils laut beinlínis að framlagi stefnanda til þjóðfélagsumræðu, sem hann sjálfur var virkur þáttakandi í, en ekki að einkalífi stefnanda eða öðrum óskyldum atriðum. Leggja verður til grundvallar að frjáls skoðanaskipti og opinn umræða um þjóðfélagsmál sé einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags, jafnvel þegar um er að ræða tjáskipti sem kunna að vera móðgandi eða valda hneykslan. Að öllu þessu virtu er því ekki hægt að fallast á að í tilviki stefndu hafi verið um að ræða tjáningu sem nauðsyn ber til að takmarka í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.