- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Frumvarpið, sem ráðherraráð og þing Evrópusambandsins eiga nú eftir að ræða og ákveða hvort skuli leiða í lög í ESB – kveður meðal annars á um reglur sem miða að því að verja ritstjórnir fjölmiðla fyrir pólitískum afskiptum og gegn eftirliti af hálfu stjórnvalda. Hin nýja löggjöf, sem verður væntanlega líka innleidd í íslensk lög fyrir tilstilli EES-samningsins, beinir sjónum að sjálfstæði og stöðugri fjármögnun almannaþjónustumiðla, sem og að gegnsæi eignarhalds fjölmiðla og því hvernig auglýsingafé ríkisins er varið. Hún inniheldur líka ráðstafanir til að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði og til að upplýsa um hagsmunaárekstra.
Ennfremur beinist löggjöfin að því að vinna á móti óhóflegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, jafnframt því að auðvelda samstarf og rekstur fjölmiðla yfir landamæri á innri markaði ESB. Loks kveður löggjöfin á um stofnun nýs sjálfstæðs samevrópsks vettvangs fyrir fjölmiðlayfirvöld aðildarríkjanna, sem á ensku mun heita European Board for Media Services. Þessari nýju stofnun mun ætlað að fylgja eftir skilvirkri beitingu þessara nýju fjölmiðlafrelsisreglna og fylgjast með samþjöppun á fjölmiðlamarkaði svo að hún hindri ekki fjölbreytni.
Heiðdís Lilja Magnúsdóttir hjá Fjölmiðlanefnd fjallar í nýrri grein um það hvað kalli á þær breytingar sem framundan eru á Evrópuregluverki um fjölmiðla.
Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB um framangreint frumvarp er haft eftir Věru Jourová, sem fer með málefni gilda og gegnsæis í framkvæmdastjórn ESB: „Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að ýmiss konar þrýstingi á fjölmiðla. Það er sannarlega kominn tími til að bregðast við. Við verðum að sameinast um skýr viðmið: enginn blaðamaður á að sæta njósnum um sig, starfs síns vegna; það á ekki að una því að opinberum miðli sé breytt í áróðursstöð. Þetta er það sem við leggjum til, í fyrsta sinn: sameiginleg viðmið til verndar fjölmiðlafrelsi og fjölbreytileika innan ESB.“
Og Thierry Breton, sem fer með málefni innri markaðar Evrópu í framkvæmdastjórn ESB, sagði: „Evrópusambandið er stærsti lýðræðislegi innri markaður heims. Fjölmiðlafyrirtæki leika lykilhlutverk en standa frammi fyrir dalandi tekjum, ógnum við fjölmiðlafrelsi og fjölhyggju, tilkomu risastórra vefvettvanga, og bútasaumi óllíkrar lagaumgjarðar frá einu landi til annars. Evrópska fjölmiðlafrelsislöggjöfin (European Media Freedom Act) skapar sameiginleg evrópsk viðmið til að tryggja fjölbreytta flóru fjölmiðla og að þeim sé gert kleift að starfa án hvers konar afskipta, hvort sem er af hálfu einkaaðila eða hins opinbera. (...).“