- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Á fundi stjórnar Blaðamannafélags Íslands, sem haldinn var í dag, var samþykkt að senda ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia svohljóðandi samhljóða bréf vegna aðgerða Isavia til að hindra blaðamenn við störf:
Umfangsmikil lögregluaðgerð fór fram aðfaranótt fimmtudagsins 3. nóvember þar sem hópur hælisleitenda var fluttur úr landi. Ekki þarf að fjölyrða um að þarna átti sér stað fréttnæmur atburður sem fullt tilefni var fyrir blaðamenn að fjalla um. Hluti aðgerðanna fór fram á Keflavíkurflugvelli sem lýtur stjórn Isavia, sem er opinbert hlutafélag. Þar beittu starfsmenn Isavia ljósabúnaði til að koma í veg fyrir að blaðamenn gætu sinnt störfum sínum og reyndu að hindra fréttaflutning.
Blaðamannafélagið lítur þetta alvarlegum augum enda felur þessi háttsemi starfsmanna Isavia í sér atlögu að störfum blaðamanna. Óumdeilt er að þarna var um fréttnæman atburð að ræða sem fullt tilefni er til að fjalla um. Hvorki lögregla né opinbert hlutafélag, sem Isavia er, á að fá að hlutast til um eðlileg störf blaðamanna eða hindra að fluttar séu fréttir af atburðum sem eiga sér stað innan starfssvæðis flugvallarins.
Frjáls fjölmiðlun er ein af grundvallarstoðum lýðræðisríkja og gilda sérstök lög og ákvæði til að tryggja þetta frelsi. Má þar nefna tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er aðili að. Þar sem aðgerðir Isavia beindust að blaðamönnum Ríkisútvarpsins er þar að auki ástæða til að minna á 6. tölul. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, þar sem segir að Ríkisútvarpið skuli „stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings“.
Hafa skal í huga að þeir fréttamenn sem þarna voru að störfum virtu allar lokanir og takmarkanir sem gilda um öryggissvæði flugvallarins og var flóðljósum beint út af svæðinu til að koma í veg fyrir myndatökur.
Blaðamannafélag Íslands fer þess á leit við stjórnendur Isavia og Ríkislögreglustjóra að upplýst verði um:
1. Hver tók ákvörðun um að hafa áhrif á og hamla eðlilegum störfum blaðamanna?
a. Ef beiðni barst Isavia um að hamla störfum blaðamanna, hvaðan kom sú beiðni?
2. Á hvaða grunni var slík ákvörðun tekin?
3. Hvernig munu stjórnendur Isavia og Ríkislögreglustjóra bregðast við og hvernig munu verkferlar hins opinbera hlutafélags og lögreglunnar breytast til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig?
Blaðamannafélagið óskar eftir skriflegum svörum við þessu spurningum og í framhaldinu fundi með ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia vegna þessa máls.
F.h. Blaðamannafélags Íslands
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður