Raunlækkun fjölmiðlastyrkja næstu árin

Þegar nánar er rýnt í tölur úr fjárlagafrumvarpinu fyrir 2023 og úr talnagrunni fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur í ljós að eini liðurinn sem flokkast undir útgjöld til fjölmiðlunar í ríkisreikningi þar sem framlög halda um það bil í við verðbólgu er rekstrarframlag ríkisins til RÚV. Hinir liðirnir – til rekstrar Fjölmiðlanefndar annars vegar og endurgreiðslustyrkir til einkarekinna fjölmiðla hins vegar – dragast aftur á móti saman. Kostnaður við rekstur Fjölmiðlanefndar stendur reyndar nokkurn veginn í stað á meðan áætluð útgjöld í fjölmiðlastyrki eiga að dragast saman á næstu árum.
Heildarútgjöld ríkisins til málaflokksins hækka samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi um 5 prósent eða 280,6 milljónir króna milli 2022 og 2023, en þá hækkun er alfarið að rekja til hækkunar tekna af útvarpsgjaldi; RÚV fær 290 milljónum meira „til samræmis við tekjuáætlun af útvarpsgjaldi“ eins og það heitir. En: „Hlutdeild málaflokksins í aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur 9,4 m.kr.,“ og því er nettó-heildarhækkunin áðurnefndar 280,6 m.kr.

Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu fara allir útgjaldaliðir málaflokksins minnkandi á næsta og komandi árum nema langstærsti útgjaldaliðurinn, rekstur RÚV. Þær 400 milljónir sem Alþingi samþykkti á sínum tíma að skyldi varið í rekstrarstyrki til einkarekinna fjölmiðla skreppa stöðugt saman ár frá ári. Á milli ársins 2021 og 2022 úr 392 milljónum í 384,3 (brúttó). Á síðasta ári núverandi fjármálaáætlunar, 2025, verður heilarupphæðin komin niður í tæplega 369 milljónir (á föstu verðlagi 2022), sem þýðir meira en 10 prósent raunsamdrátt frá því sem lagt var upp með þegar Alþingi samþykkti lög um fyrirkomulagið í maí í fyrra. 


Nánar má lesa um þessa þróun í fréttaskýringu Kjarnans, þar sem meðal annars er vakin athygli á því að hækkun framlaga ríkisins til reksturs RÚV nemur á þessu ári og næsta samtals 720 milljónum króna á meðan framlög til annarra dragast saman eins og að framan er rakið.
Í grein Kjarnans er það líka gert að umtalsefni að rekstrarstyrkirnir til einkarekinna fjölmiðla eru eina tillagan af sjö sem lagðar voru fram árið 2018 af stjórnskipaðri nefnd sem falið var það hlutverk að rita skýrslu um rekstrarvanda fjölmiðla á Íslandi og hvað væri hægt að gera til að laga hann. Ekkert hafi verið gert með hinar úrbótatillögurnar, svo sem að breyta stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, lækka virðisaukaskatt á tekjur fjölmiðla enn frekar, heimila auglýsingar sem hafa verið bannaðar hérlendis en eru leyfilegar í flestum öðrum löndum.