- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hart er nú sótt að Kringvarp Føroya, færeyska ríkisútvarpinu, og hefur Evrópusamband blaðamanna (EFJ) séð sig knúið til að lýsa yfir áhyggjum sínum af þróun mála. EFJ hefur lýst yfir þungum áhyggjum yfir því hvernig staðið hefur verið að hagræðingaraðgerðum og skorar á stjórnendur að hafa meira samstarf við starfsmenn.
19. nóvember síðastliðinn var starfsmönnum Kringvarp Føroya greint frá því að umtalsverðar breytingar stæðu fyrir dyrum á starfseminni og það án þess að nokkur undirbúningur eða viðræður ættu sér stað.
,,Ekki aðeins er ætlunin að fækka um þriðjung starfsmanna, frá 84 starfsmönnum í 60, heldur komu þessar fyrirætlanir eins og þruma úr heiðskýru lofti, bæði fyrir starfsmenn og samtök þeirra," sagði Jógvan H. Gardar, formaður Blaðamannafélags Færeyja. Bæði félagið og starfsmenn hafa óskað eftir nánari upplýsingum um stöðu mála. Þeim hefur hins vegar verið tjáð að ekki sé hægt að verða við því að svo stöddu.
Um leið og ákvörðunin lá fyrir var hætt við nokkra þætti, þar á meðal þá sem byggðust á vinnu sjálfstætt starfandi blaðamanna.
,,Við erum undrandi og áhyggjufullir. Ekki aðeins vegna umfangs endurskipulagningarinnar heldur ekki síður vegna framkomu stjórnenda," sagði Arne König formaður EFJ en hér er stuðst við tilkynningu sem EFJ sendi út vegna málsins. ,,Við skorum á stjórnendur að hefja viðræður við stéttarfélag blaðamanna svo skjótt sem unnt er."
Það sem er að gerast í Færeyjum er því miður dæmigert fyrir þróun mála undanfarin ár. Verulegur samdráttur hefur verið á starfsemi almenningsútvarps víða í Evrópu, reglulegur niðurskurður blasir allstaðar við. Hjá Kringvarp Føroya hefur þannig fækkað úr 110 starfsmönnum árið 2007 niður í 84 núna. Og áfram verður fækkað en tekjusamdráttur hefur verið undanfarin ár hjá Kringvarp Føroya.
Útvarp Føroya hóf að senda út 6. febrúar 1957.
EFJ hefur innan sinna vébanda um 310.000 blaðamenn í yfir 30 löndum.