Mikilvægt að ungir kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun

Mynd af egkys.is
Mynd af egkys.is

Blaðamannafélag Íslands tekur í fyrsta sinn þátt í lýðræðisverkefninu #ÉgKýs fyrir Alþingiskosningarnar 2024. Verkefnið felst í að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Blaðamannafélagið hefur útbúið fræðsluefni, myndband og raunhæft verkefni um mikilvægi blaðamennsku og þess að sannreyna upplýsingar á tímum samfélagsmiðla. Efnið verður nýtt til fræðslu í þeim framhaldsskólum sem taka þátt í lýðræðisátakinu í aðdraganda kosninganna. Allir framhaldsskólar landsins hafa tilkynnt um þátttöku sína.

Verkefnið #ÉgKýs er átak sem fyrst var haldið fyrir Alþingiskosningarnar 2016 en hápunktur átaksins er svokölluð lýðræðisvika þar sem framhaldsskólanemar fá ýmis konar fræðslu og taka að henni lokinni þátt í skuggakosningu. Landssamband ungmennafélaga (LUF) heldur utan um verkefnið sem er samstarf nokkurra hagsmunaaðila, þ.m.t. Blaðamannafélagsins.

„Ungt fólk nýtir sér nær eingöngu netið, mest samfélagsmiðla, til að skoða fréttir og sækja sér upplýsingar og það er lykilatriði að það læri að koma auga á rangar, óheiðarlegar eða falskar upplýsingar í aðdraganda kosninga. Því skiptir þetta samstarf við Blaðamannafélag Íslands gríðarlegu máli. Með þessari aðgengilegu fræðslu erum við að hjálpa yngstu kjósendunum að taka upplýstari ákvörðun.“ Segir Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF, um átakið. „Við leggjum mikla áherslu á að fyrstu kjósendur kynni sér framboðin og að hvetja til þess að upplýstar ákvarðanir séu teknar. Nú hafa allir framhaldsskólar lýst því yfir að þau ætli að taka þátt svo þetta er einstakt tækifæri að til að fá þennan hóp til að staldra við og hugsa hvaðan upplýsingarnar sem þau neyta er að koma og hvaða hagsmunir liggi að baki þeim.“ Hélt hún áfram.

Áróður, rangar eða villandi upplýsingar og falsfréttir geta ýtt undir öfgahyggju og því er mjög mikilvægt að ungt fólk læri að koma auga á rangar, óheiðarlegar eða falskar upplýsingar. Fagleg blaðamennska er besta leiðin til þess, enda hefur hún aldrei verið mikilvægari.

Fræðsluefnið og myndbandið má finna á egkys.is og hér á press.is. Í myndbandinu skýra Bjarki Sigurðsson, blaðamaður á Stöð 2/Vísi/Bylgjunni, og Ingunn Lára Kristjánsdóttir, blaðamaður, hjá RÚV, frá því að hverju þarf að gæta þegar maður rekst á kosningaefni á samfélagsmiðlum.

Fræðsluefni um fjölmiðlalæsi í lýðræðissamfélagi.