- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélagsins voru afhent í Gerðarsafni í Kópavogi nú síðdegis. Verðlaunahafar voru þau Ólöf Skaftadóttir fyrir viðtal ársins, Helgi Seljan fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, ritstjórn mbl.is fyrir umfjöllun ársins, og þeir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson hlut blaðamannaverðlaun ársins. Mynd ársins tók Sigtryggur Ari Jóhannsson.
Hér á eftir má lesa bæði tilnefningar dómnefndar og rökstuðning fyrir verlaunaveitingunum.
Viðtal ársins 2014
Tilnefnd til verlauna fyrir viðtal ársins eru:
Indíana Hreinsdóttir, DV. Viðtal við Stefán Hilmarsson. Viðtalið er gott dæmi um hvernig hægt er að skrifa áhugavert viðtal sem sýnir þekktan einstakling í nýju og persónulegu ljósi og segja frá ævi hans og erfiðleikum á áreynslulausan hátt.
Júlía Margrét Alexandersdóttir, Morgunblaðinu. Viðtal við Þorstein J. Vilhjálmsson. Viðtalið er einlægt og afar persónulegt og nær Júlía að draga fram persónuna og sögu Þorsteins á afar næman hátt.
Ólöf Skaftadóttir, Fréttablaðinu. Viðtal við tvíburabræðurna Kára og Halldór Auðar- og Svanssyni. Viðtalið er einstaklega hispurslaust um baráttu þeirra bræðra við geðræna sjúkdóma. Þrátt fyrir erfitt umfjöllunarefni nær Ólöf að viðhalda léttleika í gegnum viðtalið en gefur samt ekkert eftir í raunsönnum lýsingum.
Verðlaunin hlýtur Ólöf Skaftadóttir, Fréttablaðinu fyrir áhrifarík viðtal við tvíburabræðurna Kára og Halldór Auðar- og Svanssyni. Í viðtalinu lýsa bræðurnir reynslu sinni af geðsjúkdómum af mikilli hreinskilni, annars vegar tólf ára baráttu Kára við að lifa við geðklofa og hins vegar geðrofi Halldórs í kjölfar kannabisneyslu. Með þessu viðtalin nær Ólöf að draga fram mikilvægar raddir þeirra bræðra til að draga úr fordómum gegn geðsjúkdómum sem best næst fram með því að tala við þá sem sjálfir hafa lifað með sjúkdómnum. Fordómaleysi Ólafar og virðing gagnvart viðfangsefninu skín í gegn um textann og lýsir það sér ekki síst í léttleikanum sem einkennir viðtalið, en nær jafnframt að lýsa erfiðleikum við að hætta á geðlyfjum, að takast á við breyttar aðstæður sem fylgja sjúkdómnum og breyttri lífssýn þeirra bræðra. Ekki er hvað síst óvenjulegt að lesa jafn hreinskilið viðtal við stjórnmálamann um persónuleg málefni og þetta viðtal er. .
Rannsóknarblaðamennska ársins
Tilnefnd til rannsóknarblaðamennsku ársins 2014 eru:
Garðar Örn Úlfarsson Fréttablaðinu og Þorbjörn Þórðarson Stöð 2. Umfjöllun um flugslysið við Akureyri. Garðar Örn og Þorbjörn birtu myndband sem varpaði nýju ljósi á aðdraganda slyssins. Í kjölfarið fylgdu fréttir sem drógu fram í dagsljósið umgengni og viðhorf forsvarsmanna flugfélagsins til sjúkraflutninganna og hvernig yfirvöld hlupu undir bagga með flugfélaginu.
Helgi Seljan, Kastljósi. Umfjöllun um MS og uppruna vöru. Í umfjöllun sinni uppljóstraði Helgi hvernig MS, sem og önnur fyrirtæki, leyna því fyrir almenningi þegar þau blanda erlendri vöru við íslenska. Einnig benti hann á að embættismaður í ráðuneyti landbúnaðar hefur setið beggja vegna borðsins í mörgum málum sem snerta samkeppni og landbúnað.
Hrund Þórsdóttir, Stöð 2. Umfjöllun um lyfjamistök. Hrund kafaði ofan í andlát eldri manns sem lést rúmri viku eftir að honum var gefinn rangur lyfjaskammtur á heilbrigðisstofnun. Hrund leitaði víða fanga í eftirfylgni með málinu, m.a. með fordæmalitlu viðtali við lækni mannsins sem undraðist afstöðu landlæknis en einnig með mjög skýrri almennri umfjöllun um lyfjamistök, viðbrögð við þeim og hvernig hægt er að takmarka slík mistök.
Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2014 hlýtur Helgi Seljan.
Í umfjöllun Helga Seljan um uppruna vöru og stöðu búvörumála í landinu sýndi hann fram á hvernig sérhagsmunir bænda, MS og innlendra kjötvinnslna eru varðir á kostnað neytenda. Hann gróf upp hvernig MS, sem og aðrir framleiðendur, blanda erlendri búvöru við þá íslensku og selja án upprunamerkinga svo hún virðist íslensk.
Helgi lét ekki fregnir af írska smjörinu sem blandað var innlendri vöru nægja, heldur gróf dýpra og lengra. Í ljós kom að írska smjörið í vinsælum innlendum mjólkurvörum var ekki einsdæmi.
Helgi rannsakaði málið frá mörgum hliðum og dró fram í dagsljósið að embættismaður landbúnaðarmála hefði setið beggja vegna borðs og tæki ákvarðanir sem túlka megi í hag fyrrum vinnuveitenda og þessara sérhagsmuna.
Umfjöllun Helga sýnir þá veiku stöðu sem neytendur eru í þegar kemur að uppruna vöru, landbúnaðarvörum almennt og eftirliti með innlendum framleiðendum.
Besta umfjöllun ársins 2014
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, DV. Umfjöllun um Alzheimer og heilabilun. Með hreinskilnum og áhrifaríkum frásögnum fengu lesendur skýra sýn á það hvernig erfiður og algengur sjúkdómur snertir sjúklingana og fjölskyldur þeirra.
Ritstjórn mbl.is. Umfjöllun um stórbrunann í Skeifunni. Ritstjórn mbl.is nýtti sér alla helstu kosti netsins og færði lesendum skjótt, vel og með myndrænum hætti fréttir af bruna í Skeifunni frá ýmsum sjónarhornum og um leið og þær gerðust.
Sigurður Mikael Jónsson. DV. Umfjöllun um neytendamál. Með frumlegri nálgun og myndrænni framsetningu tókst honum að varpa ljósi á ólíkar hliðar daglegrar neyslu sem hefur mikil áhrif á kjör fólks og heilsu.
Verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins hlýtur ritstjórn mbl.is
Netið, snjallsímar og samskiptamiðlar hafa breytt fréttamiðlun. Kröfurnar eru að fólk fái fréttirnar eins fljótt og kostur er, helst um leið og þær gerast en án þess þó að það komi niður á gæðum.
Þegar stórbruni varð í Skeifunni síðasta sumar sýndi ritstjórn mbl.is vel hvernig nýta má alla helstu kosti netsins og tækninnar til að færa lesendum skýra mynd af því sem var að gerast með hnitmiðuðum texta, myndum og myndskeiðum frá dróna úr lofti.
Fréttaflutningurinn byrjaði fljótlega eftir að fyrst varð vart við brunann og stóð yfir þar til yfir lauk. Greint var frá brunanum og áhrifum hans frá fjölmörgum sjónarhornum og með góðu samspili blaðamanna og ljósmyndara sem auk þess notuðust við myndir af vettvangi frá almenningi.
Niðurstaðan var heildstæð og ítarleg umfjöllun sem minnti rækilega á hvað netið er öflugur fréttamiðill.
Blaðamannaverðlaun ársins 2014
Tilnefnd til Blaðamannaverðlauna ársins eru :
Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon DV. Umfjöllun um lekamálið.Jóhann Páll og Jón Bjarki sýndu einstakt þolgæði við að upplýsa allar hliðar lekamálsins svokallaða og fylgdu málinu vel eftir, þrátt fyrir mikið mótlæti og andstöðu ráðherra , sem endaði með afsögn hans.
Magnús Halldórsson, Ægir Þór Benediktsson og Þórður Snær Júlíusson Kjarnanum. Umfjöllun um sölu Landsbankans á hlut í Borgun. Kjarnamenn drógu fram mikilsverðar upplýsingar um kaupin og hvernig kaupendur voru valdir á bak við luktar dyr og settu það fram á auðskiljanlegan hátt fyrir lesendur.
Viktoría Hermannsdóttir, Fréttablaðinu. Umfjöllun um innflytjendur og áhrifarík viðtöl. Fyrir að varpa ljósi á þær hindranir sem innflytjendur verða fyrir á Íslandi þegar þeir vilja öðlast réttindi til að starfa samkvæmt menntun sinni. Einnig birtust á árinu áhrifarík viðtöl Viktoríu við einstaklinga sem hafa þurft að takast á við erfiðleika.
Blaðamannaverðlaun ársins 2014 hljóta Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon.
Einurð þeirra í lekamálinu svokallaða varð til þess að það skaut ekki aðeins upp kollinum um stundarsakir. Þeir fylgdu málinu vel eftir, komu stöðugt fram með nýjar hliðar þess og héldu fréttaflutningnum gangandi af festu.
Umfjöllunin smitaðist yfir í aðra fjölmiðla og umboðsmaður Alþingis tók einn anga málsins upp að eigin frumkvæði. Ráðuneytisskipan landsins var breytt, aðstoðarmaður ráðherra játaði á sig lekann og að lokum varð innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir að segja af sér ráðherradómi. Enn teygir lekamálið anga sína út í samfélagið með ýmsum hætti.
Þrátt fyrir harða gagnrýni og ótal tilraunir til þöggunar stóðu blaðamennirnir í ístaðinu. Þolgæði þeirra varð til þess að ljósi var varpað á það sem raunverulega gerðist á bakvið tjöldin. Það minnir á mikilvægi gagnrýninnar blaðamennsku og að trúnaður blaðamanna sé fyrst og síðast við almenning í landinu og engan annan.