Blaðamannaverðlaunin 2019 veitt

Vinningshafar eftir verðlaunaathöfnina.
Vinningshafar eftir verðlaunaathöfnina.

Blaðamannaverðlaunin fyrir árið 2019 voru veitt í öllum fjórum flokkum verðlaunanna fyrir stundu í Blaðamannaklúbbnum í húsakynnum BÍ í Síðumúla.   Veitt voru verðlaun fyrir umfjöllun um hamfarahlýnun, barn sem lokað var inni hjá geðveikri móður, Samherjamálið, og kjaramál.  Hér að neðan má sjá vinningshafa í hverjum flokki ásamt rökum dómnefndar og auk þess nöfn hinna sem tilnefndir voru í viðkomandi flokkunum.

Besta umfjöllun

Verðlaunin hlutu þau Alma Mjöll Ólafsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Margrét Marteinsdóttir, og Steindór Grétar Jónsson, Stundinni, fyrir umfjöllun um hamfarahlýnun. Rök dómnefndar voru eftirfarandi: „Í yfirgripsmikilli og vandaðri umfjöllun fjalla blaðamenn Stundarinnar um fyrirséðar afleiðingar og birtingarmyndir loftslagsvár hér á landi og víðar, aðgerðir stjórnvalda og viðleitni einstaklinga til þess að vega upp á móti skaðlegum umhverfisáhrifum sem stafað geta af daglegu lífi fólks.“

Aðrir tilnefnir í þessum flokki voru Arnhildur Hálfdánardóttir, RÚV, fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían og þeir Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum, fyrir umfjöllun um efnahagsmál

 Viðtal ársins

Verðlaunin hljóta þau Erla Björg Gunnarsdóttir, Nadine Guðrún Yaghi, og Jóhann K. Jóhannsson, Kompási, Fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, fyrir viðtal og umfjöllun um barn sem var lokað inni á heimili með geðveikri móður. Rök dómnefndar voru eftirfarandi: „Vandað viðtal við 17 ára stúlku, Margréti Lillý Einarsdóttur, sem lýsir því hvernig samfélagið brást henni þegar hún á grunnskólaaldri ólst upp ein hjá móður sem átti við bæði geðrænan vanda og fíknivanda að stríða. Viðtalið vakti verðskuldaða athygli og var fylgt eftir með fjölda frétta um stöðu barna í viðkvæmri stöðu, starfsemi barnaverndarnefnda og fleiri þætti og leiddi meðal annars til þess að bæjarstjóri Seltjarnarness baðst formlega afsökunar á því hvernig staðið var að málum í tilviki Margrétar Lillýar.“

Aðrir tilnefndir í þessum flokki voru Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu, fyrir viðtal við Sævar Þór Jónsson lögmann og Ari Brynjólfsson, Fréttablaðinu, fyrir viðtal við fjóra erlenda vagnstjóra.

Rannsóknarblaðamennska

Verðlaunin hljóta þeir Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Stefán Drengsson, Kveik og Stundinni, fyrir umfjöllun um Samherjamálið. Rök dómnefndar eru eftirfarandi: „Fá mál vöktu meiri athygli í íslensku samfélagi en umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í samvinnu við Al Jazeera og Wikileaks um ásakanir á hendur Samherja um mútugreiðslur í tengslum við starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Umfjöllunin byggði staðhæfingum fyrrum starfsmanns Samherja í Namibíu og miklu magni gagna sem einnig voru gerð aðgengileg almenningi á netinu samhliða birtingu frétta af málinu. Umfjöllunin hefur haft mikil áhrif, bæði hér heima og erlendis.“

Aðrir tilnefndir í þessum flokki voru þeir Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson, Kveik, fyrir umfjöllun um Procar-málið og Stefán Einar Stefánsson, Morgunblaðinu, fyrir bókina „Wow, ris og fall flugfélags“ ásamt fréttum og fréttaskýringum um sama mál.

Blaðamannaverðlaun ársins

Verðlaunin hlýtur Arnar Páll Hauksson, Speglinum, RÚV, fyrir umfjöllun um kjaramál.Rök dómnefndar voru eftirfarandi: „Arnar Páll hefur af djúpri þekkingu og áralangri yfirsýn fjallað um kjaramál með afar vönduðum hætti í ótal fréttum og fréttaskýringum á tímum mikils umróts á vinnumarkaði. Hann hefur fjallað ítarlega um hugmyndir og tillögur sem lagðar hafa verið fram í kjaraviðræðum og flytur iðulega fyrstu fréttir af þróun mála.“

Aðrir tilnefndir í þessum flokki voru Guðrún Hálfdánardóttir, mbl.is, fyrir greinaflokkinn Skóli fyrir alla og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, Stundinni, fyrir vönduð viðtöl og umfjallanir.