- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands stendur fyrir blaðamannadeginum 1. apríl nk. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi blaðamennsku, vekja áhuga á fjölmiðlum og stéttinni og veita innsýn í það mikilvæga starf sem blaðamenn vinna í þágu samfélagsins og lýðræðisins.
Hápunktur dagsins verður veiting blaðamannaverðlaunanna sem fram fer í húsnæði félagsins að Síðumúla 23 en áður en þau verða veitt verður haldið ör-málþing sem nánar verður auglýst síðar. Kvöldinu lýkur svo með drykk og veitingum í sal BÍ.
Við höfum sett okkur í samband við fulltrúa fjölmiðla og biðlað til þeirra um að taka þátt í þessum fræðslu- og uppskerudegi fjölmiðlafólks með hvaða hætti sem hentar, til dæmis með því að opna ritstjórnarskrifstofur og bjóða almenningi í heimsókn og mögulega samtal við blaðamenn.
Borgarbókasafnið ætlar líklega að taka þátt með því að stilla fram bókum um blaðamenn og blaðamennsku. Mögulega verða fleiri viðburðir einnig skipulagðir.
Þá er ætlunin að þennan dag verði haldinn fyrsti fundur samráðsvettvangs um fjölmiðla - sem samanstendur af BÍ og fulltrúum eigenda allra helstu fjölmiðla landsins. Markmið samráðsvettvangs er að þar geti farið fram samtal um hagsmuni stéttarinnar á breiðum grundvelli með öllum hagaðilum.
Nánari upplýsingar verða sendar út þegar nær dregur. Takið daginn frá.