- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Íslands skorar á Katrínu Jakobsdóttur og ríkisstjórn hennar að beita sér fyrir því gagnvart bandarískum stjórnvöldum að málsóknin gegn ástralska blaðamanninum Julian Assange verði felld niður.
Vaxandi skilningur er á því víða að málsóknin gegn Julian Assange er ekki eingöngu aðför gegn einum blaðamanni heldur árás á fjölmiðlafrelsi um allan heim. Ákæran gegn honum jafnar blaðamennsku við njósnir og tók Trump-stjórnin sér það vald að ákæra ástralskan blaðamann fyrir útgáfustarfsemi í Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Íslandi. Assange situr nú í fangelsi í Bretlandi við slæma heilsu þrátt fyrir að hafa ekki hlotið dóm. Verði hann framseldur til Bandaríkjanna bíður hans hámarksrefsing fyrir 18 ákæruliði, sem byggja á fornri þarlendri njósnalöggjöf frá árinu 1917, sem nemur 175 ára fangelsi. Þetta er í fyrsta sinn í bandarískri sögu sem mál er rekið gegn blaðamanni á grunni þessarar löggjafar.
Fordæmið sem þarna er gefið - ef ekki er spornað við fótum, þýðir að allir blaðamenn, hvar sem er í heiminum, geta átt yfir höfði sér ákæru og framsalskröfu ef þeir birta eitthvað sem bandarískum stjórnvöldum hugnast að skilgreina sem ógn við sína hagsmuni.
Stjórn Blaðamannafélags Íslands fer þess á leit við íslensk stjórnvöld að þau nýti hvert það tækifæri sem upp kemur í samskiptum við bandarísk stjórnvöld til þess að vekja athygli á þeim mannréttindabrotum sem Assange verður fyrir og hve tilhæfulausar ásakanirnar gegn honum eru.
Öll helstu mannréttindasamtök heimsins og einkum þau sem sérstaklega berjast fyrir málfrelsi og fjölmiðlafrelsi, hafa lagst á sveif í baráttunni gegn þessari aðför, sem engum dylst að er pólitísk í eðli sínu. Alþjóðasamtök blaðamanna og einstök blaðamannafélög hafa einnig ályktað til stuðnings Assange.