- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Skrifstofu BÍ hefur borist nýtt framboð frá Sigríðu Dögg Auðunsdóttur til formennsku í félaginu. Tilkynning hennar um framboð er svohljóðandi:
"Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í stöðu formanns Blaðamannafélags Íslands sem kosið verður um á næsta aðalfundi, þann 29. apríl.
Blaðamannafélagið stendur á spennandi tímamótum. Nýr formaður tekur við að loknum næsta aðalfundi og hans bíður það verkefni að færa starfsemi félagsins inn í nýja tíma. Við þurfum að aðlaga þetta öfluga félag að nútímanum og móta starfsemina út frá breyttum þörfum nýrra tíma með hagsmuni félaganna að leiðarljósi. Við þurfum að setjast niður, öll sem eitt, og koma okkur saman um hvað félagið á að standa fyrir, hvaða hlutverki það á að gegna í samfélaginu og gagnvart störfum okkar. Ég tel að nýr formaður eigi að stýra slíku endurbótastarfi og vera leiðtogi í þeirri vinnu og ég er sannfærð um að ég sé rétta manneskjan til þess að gera það.
Hlutverk formanns BÍ er að verja hagsmuni félagsins og félagsmanna út á við og taka alla þá slagi sem nauðsynlegt er að taka. Blaða- og fréttamenn þurfa oft að sitja undir ásökunum og jafnvel ærumeiðingum tengdum störfum sínum og eitt helsta hlutverk formanns og félagsins er að standa þétt við bak þeirra félagsmanna (og annarra blaða- og fréttamanna ef svo ber undir) og verja þá og störf þeirra þegar þess er þörf.
Þá er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að ná fram bættum kjörum og auknu starfsöryggi í stéttinni og vinna að því að efla skilning á mikilvægi fjölmiðla í samfélaginu og þýðingu þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.
Ég hef góða innsýn í flest störf innan íslenskra fjölmiðla og rúmlega tveggja áratuga reynslu í faginu. Auk þess sem ég hef unnið fréttir og viðtöl í dagblöð og ljósvakamiðla hef ég stofnað og stýrt fjölmiðlum með þeirri dýrmætu reynslu sem það felur í sér. Ég hef unnið við blaða- og fréttamennsku frá árinu 1999 þegar ég lauk námi í Hagnýtri fjölmiðlum og hóf störf á Morgunblaðinu. Þar var ég fyrst fastráðin og síðan lausráðin sem fréttaritari í London til ársins 2002. Í London vann ég við fjölmiðla og almannatengsl þangað til ég kom aftur heim til Íslands árið 2004 og hóf störf á Fréttablaðinu þar sem ég starfaði til ársbyrjunar 2007. Þá stofnuðum við Valdimar Birgisson, eiginmaður minn, vikublaðið Krónikuna sem var skammlíf en lærdómsrík reynsla. Ég fór í framhaldinu á DV en síðan í almannatengsl hjá Mosfellsbæ, stofnaði eigin PR ráðgjöf og fór loks á Fréttatímann þar sem ég varð síðan ritstjóri til ársins 2014. Eftir nokkurra ára hlé frá fjölmiðlastörfum hóf ég störf sem fréttamaður hjá RÚV árið 2017 þar sem ég hef verið síðan, lengst af á fréttastofunni en einnig einn vetur í Morgunútvarpi Rásar tvö.
Ég á auðvelt með að vinna með fólki, er hugmyndarík og skipulögð og mér gengur vel að fá fólk í lið með mér þegar þess þarf. Ég er sannfærð um að sá formaður sem Blaðamannafélag Íslands þarf um þessar mundir er sá sem kann að miðla málum, fá fólk til þess að vilja vinna saman, er jákvæður og drífandi, hefur skýra sýn um framtíð félagsins og getur miðlað henni.
Ég vona að mér verði treyst til þess að leiða félagið inn í nýja tíma og heiti því að vinna með ykkur og fyrir ykkur að því að efla hagsmuni ykkar og félagsins okkar.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir"