- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands hefur sent inn umsögn um frumvarp tveggja þingmanna um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Í frumvarpinu er lagt til að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði. Blaðamannafélagið fagnar því að löggjafinn sé loksins með til umfjöllunar frumvarp sem hefur það að markmiði að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hefur það að leiðarljósi að styrkja rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla.
Í umsögninni hvetur Blaðamannafélagið löggjafarvaldið til þess að að grípa til enn frekari aðgerða í þágu einkarekinna fjölmiðla en þegar hefur verið gert. Beinir styrkir til einkarekinna miðla hafa þegar verið lögfestir, þótt einungis sé um tímabundið úrræði sé að ræða. Nauðsynlegt er að auka það fé sem veitt er til þeirra, endurskoða úthlutunarreglur svo þeir nái til fleiri miðla og gera úrræðið varanlegt.
Þá er sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar, að taka RÚV af auglýsingamarkaði, nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara rekstrarumhverfis. Það sem er ekki síður mikilvægt, og gæti skilað einkareknum fjölmiðlum enn meira rekstrarfé en auknar auglýsingatekjur með brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði, er skattlagning erlendu tæknirisanna. Hvetur Blaðamannafélag Íslands stjórnvöld til þess að leita allra leiða til þess að rétta af þá skökku samkeppnisstöðu sem þar er um að ræða, til að mynda með því að láta skatttekjur renna beint í sjóð sem deilist á einkarekna fjölmiðla.
Blaðamannafélagið hvetur jafnframt löggjafann til þess að taka til skoðunar allar þær tillögur sem lagðar voru fram í nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla því ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að enn fleiri fjölmiðlar neyðist til að leggja árar í bát en nú þegar er orðið.
Umsögnin í heild sinni:
Umsögn Blaðamannafélags Íslands um:
Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (viðskiptaboð) 694. mál
(Lagt fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi 2020–2021.)
Stjórn Blaðamannafélags Íslands þakkar allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að veita umsögn um ofangreint mál. Blaðamannafélag Íslands fagnar því að löggjafinn sé loksins með til umfjöllunar frumvarp sem hefur það að markmiði að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og hefur það að leiðarljósi að styrkja rekstrargrundvöll einkarekinna fjölmiðla.
Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu standa einkareknir fjölmiðlar höllum fæti. Rekstrarumhverfið hefur stórversnað á undanförnum árum vegna stórfelldra breytinga á fjölmiðlamarkaði með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og tæknirisa á borð við Facebook og Google. Tæknirisarnir soga til sín æ stærri hluta af auglýsingafé á íslenskum markaði og íslenskir ljósvakamiðlar mega sín lítils í samkeppni um áskrifendur við alþjóðlega risa á borð við Netflix. Þá má nefna að stöðugt færri eru reiðubúnir að greiða fyrir fréttir eða fréttatengt efni. Þetta, og fleira, gerir það að verkum að rekstrarforsendur fjölmiðla hafa versnað til muna og er svo komið að tvísýnt er um rekstur flestra þeirra.
Þetta breytta umhverfi og neysluhegðun var dregin fram í skýrslu um rekstrarumhverfi fjölmiðla frá árinu 2018 sem unnin var að beiðni menntamálaráðherra. Leiða má líkum að því að rekstrarumhverfið hafi versnað til mikilla muna frá því hún kom fram því samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands hafa tekjur íslenskra fjölmiðla dregist enn meira saman frá því skýrslan var gerð og tæknirisarnir taka nú til sín fjórar af hverjum tíu krónum sem íslensk fyrirtæki verja til auglýsinga.
Í skýrslunni eru sjö tillögur. Ein þeirra, stuðningur til einkarekinna miðla, er nú orðin að lögum sem er vel, þótt styrkirnir þurfi að vera hærri og gagnast fleiri miðlum. Önnur tillagan snýr að því að taka RÚV af auglýsingamarkaði, en í því frumvarpi sem hér er til umsagnar er það lagt til. Blaðamannafélag Íslands fagnar því að löggjafinn ræði nú það mikilvæga skref í þágu frjálsrar fjölmiðlunar að taka RÚV af auglýsingamarkaði en leggur jafnframt á það höfuðáherslu að tryggja beri rekstur RÚV með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem vega muni upp á móti tekjutapi þegar auglýsingasölu verður hætt. Þá er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingu til RÚV til lengri tíma, til að mynda 8-10 ára í senn og setja ákvæði inn í þjónustusamning þess efnis. Ennfremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir það að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar.
Blaðamannafélag Íslands vill nýta þetta tækifæri til þess að hvetja löggjafarvaldið til þess að grípa til enn frekari aðgerða í þágu einkarekinna fjölmiðla en þegar hefur verið gert. Beinir styrkir til einkarekinna miðla hafa þegar verið lögfestir, þótt einungis sé um tímabundið úrræði sé að ræða. Nauðsynlegt er að auka það fé sem veitt er til þeirra, endurskoða úthlutunarreglur svo þeir nái til fleiri miðla og gera úrræðið varanlegt. Þá er sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar, að taka RÚV af auglýsingamarkaði, nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara rekstrarumhverfis. Það sem er ekki síður mikilvægt, og gæti skilað einkareknum fjölmiðlum enn meira rekstrarfé en auknar auglýsingatekjur með brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði, er skattlagning erlendu tæknirisanna. Hvetur Blaðamannafélag Íslands stjórnvöld til þess að leita allra leiða til þess að rétta af þá skökku samkeppnisstöðu sem þar er um að ræða, til að mynda með því að láta skatttekjur renna beint í sjóð sem deilist á einkarekna fjölmiðla. Þá vill Blaðamannafélagið jafnframt hvetja löggjafann til þess að taka til skoðunar allar þær tillögur sem lagðar voru fram í nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla því ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að enn fleiri fjölmiðlar neyðist til að leggja árar í bát en nú þegar er orðið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélaginu enda er inn á það komið í frumvarpinu sjálfu.
Að sjálfsögðu er fulltrúi félagsins reiðubúinn að koma fyrir nefndina og gera betur grein fyrir afstöðu félagsins sé þess óskað.